Íslenski boltinn

Klara er skipulagðari framkvæmdastjóri en ég var

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Klara Bjartmarz.
Klara Bjartmarz. vísir/gva
Stjórn KSÍ ákvað á fundi sínum í gær að ráða Klöru Bjartmarz sem framkvæmdastjóra sambandsins. Hún er fyrsti kvenkyns framkvæmdastjóri KSÍ.

„Það var einhugur um þessa ráðningu hjá stjórninni," segir Geir Þorsteinsson, formaður KSÍ.

Klara hefur gegnt starfinu síðan í mars á þessu ári er Þórir Hákonarson lét af störfum. Hún var þá ráðin tímabundið.

Hún er engin nýgræðingur hjá KSÍ enda starfað fyrir sambandið síðan 1994. Klara hefur lengst af starfað við mótamál og kvennalandsliðið. Klara var einnig skrifstofustjóri KSÍ um árabil og hefur starfað fyrir UEFA sem eftirlitsmaður á alþjóðlegum leikjum.

Starfið var ekki auglýst

„Klara hefur staðið sig vel í störfum fyrir sambandið á löngum ferli og verið traust í sínum störfum. Hún hefur síðan vaxið í þessu nýja starfi," segir Geir en það vakti nokkra athygli að starfið var ekki auglýst. Hvernig stóð á því?

„Það var ekki auglýst þegar ég var ráðinn í þetta starf á sínum tíma og ekki heldur þegar Þórir var ráðinn. Þegar Þórir hætti þá ræddum við hvaða leiðir við vildum fara. Við ákváðum að ráða hana tímabundið. Stjórnarmenn voru ánægðir með hennar störf og tóku í kjölfarið þá ákvörðun að ráða hana. Við teljum þetta vera góða aðferð ef við fáum réttu manneskjuna. Það hefur reynst okkur vel að velja fólk innan okkar hreyfingar."

Geir var sjálfur framkvæmdastjóri sambandsins á árunum 1997 til 2007 er hann var kosinn formaður. Hvaða kosti hefur nýi framkvæmdastjórinn helst?

„Ef ég ætti að nefna eitthvað eitt þá myndi ég segja að hún væri mjög skipulögð. Hún er skipulagðari en ég var ef ég á að vera alveg hreinskilin."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×