Íslenski boltinn

Patrick Pedersen: Spiluðum einn okkar besta leik í sumar

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Valsmenn fögnuðu vel og innilega í leikslok.
Valsmenn fögnuðu vel og innilega í leikslok. vísir/anton
Um fátt var meira um rætt í aðdraganda bikarúrslitaleiks Vals og KR en meiðsli Patricks Pedersen.

Daninn missti af tveimur af síðustu þremur deildarleikjum Vals en spilaði í dag og átti frábæran leik.

Hann haltraði um í fagnaðarlátum Vals en sársaukinn var þess virði.

"Ég er mjög ánægður. Við spiluðum vel í dag," sagði Patrick í samtali við Vísi eftir leik.

"Fyrri hálfleikur var jafn en við vorum sterkari aðilinn í þeim seinni, pressuðum þá vel og fengum nóg af færum."

Patrick hefur verið að glíma við ristarmeiðsli að undanförnu en hvernig leið honum í leiknum í dag?

"Ég fékk sprautu rétt fyrir leikinn og var fínn í fyrri hálfleik. Ég hljóp mikið í dag og var orðinn þreyttur undir lokin," sagði Patrick sem sagði Val hafa spilað einn sinn besta leik í sumar í dag.

"Já, ég held það. Við stóðum okkur vel og börðumst vel."

Patrick hrósaði ennfremur Ólafi Jóhannessyni, þjálfara Vals, sem hefur gert góða hluti með liðið í sumar.

"Hann er góður þjálfari, líkt og Bjössi (Sigurbjörn Hreiðarsson, aðstoðarþjálfari Vals). Þeir mynda gott par.

"Óli er meira af gamla skólanum en Bjössi af þeim nýja og það er góð blanda," sagði Daninn að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×