Íslenski boltinn

Umfjöllun, viðtöl, einkunnir og myndir: Leiknir - ÍBV 0-2 | Sjáðu mörkin

Kristinn Páll Teitsson á Leiknisvelli skrifar
ÍBV skaust upp úr fallsæti í Pepsi-deildinni með gríðarlega mikilvægum sigri á Leikni í Breiðholtinu í fyrsta leik 15. umferðar í Pepsi-deildinni í dag. Sigurinn var kærkominn en þetta var fyrsti sigur ÍBV á útivelli í sumar.

Ernir Eyjólfsson, ljósmyndari Vísis og Fréttablaðsins, var á staðnum og tók þessar myndir sem sjá má með fréttinni.

Það var um sannkallaðan sex stiga slag í Breiðholtinu að ræða en bæði liðin eru að berjast fyrir lífi sínu í Pepsi-deildinni.

Nýliðarnir í Leikni skutust upp fyrir ÍBV í síðustu umferð með óvæntum sigri á Íslandsmeisturunum í Stjörnunni á sama tíma og ÍBV tapaði naumlega fyrir Fylki í Vestmannaeyjum.

Leiknismenn voru með undirtökin í upphafi og kom fyrsta mark leiksins því eiginlega þvert á gang leiksins. Gunnar Heiðar Þorvaldsson, leikmaður ÍBV, vann boltann rétt fyrir utan vítateig og renndi boltanum inn á Jose Enrique sem lagði boltann framhjá Eyjólfi Tómassyni.

Eftir markið tóku Eyjamenn völdin á leiknum og voru ógnandi á næstu mínútum leiksins en Leiknisliðið virtist hálf vankað eftir að hafa lent undir gegn gangi leiksins.

Fengu Aron Bjarnason og Jose Enrique báðir ágæt færi til þess að bæta við öðru marki Eyjamanna en settu boltann báðir framhjá.

Eftir því sem tók að líða á hálfleikinn náðu Leiknismenn aftur undirtökunum í leiknum og byrjuðu að skapa sér betri færi.

Féll besta færið í skaut Danny Schreurs, hollenska framherja Leiknis, er hann skallaði í slánna af meters færi í lok venjulegs leiktíma í fyrri hálfleik. Þá átti Sindri Björnsson góða tilraun af vítateigslínunni en Abel var vel á verði í marki ÍBV.

Það fjaraði undan spilamennsku Leiknismanna í seinni hálfleik en jafnræði var með liðunum fram að öðru marki ÍBV í leiknum. Jose Enrique skyldi þá eftir varnarlínu Leiknismanna með einfaldri gabbhreyfingu og setti boltann í fjærhornið framhjá Eyjólfi.

Þetta virtist endanlega slökkva á öllum vonum Leiknismanna um að næla í eitthvað í þessum leik, sóknarleikurinn var dapur og tilviljanakenndur seinustu þrjátíu mínútur leiksins.

Schreurs fékk sannkallað dauðafæri eftir aukaspyrnu Hilmars þegar boltinn datt fyrir hann metra frá markinu en skotið fór beint á Abel.

Schreurs lagði upp síðasta færi Leiknismanna í leiknum þegar fimm mínútur voru eftir af leiknum. Átti hann þástungusendingu inn fyrir vörn ÍBV á Daða Bergsson sem kom inn af varamannabekknum en skot Daða var slakt og beint á Abel.

Með sigrinum skaust ÍBV upp fyrir Leikni í 10. sæti Pepsi-deildarinnar en þetta var fyrsti sigur liðsins undir stjórn Ásmundar Arnarssonar.

Ásmundur í leiknum í dag.Vísir/Ernir
Ásmundur: Mikill léttir að vinna fyrsta sigurinn

„Þetta er vissulega mikill léttir,“ sagði Ásmundur Arnarson, þjálfari ÍBV, eftir að hafa stýrt liðinu til sigurs í fyrsta sinn í 2-0 sigri á Leikni í dag eftir þrjá tapleiki í röð.

„Það er gríðarlega ánægjulegt að ná þremur stigum á erfiðum útivelli í jafn mikilvægum leik og þessi var. Þetta var fyrsti sigur liðsins á útivelli í sumar og ég verð að hrósa strákunum.“

Þrátt fyrir að Leiknismenn hafi stýrt leiknum lengst af voru það gestirnir úr Vestmannaeyjum sem skoruðu einu mörk leiksins.

„Það er mikil vinna að baki þessum sigri og strákarnir lögðu allt í þennan leik. Þessi frammistaða er eitthvað sem hægt er að byggja ofan á fyrir framhaldið því það er fullt eftir af mótinu.“

Ásmundur sagði að það hefði ekki verið erfitt að mótivera leikmenn fyrir leikinn.

„Strákarnir gerðu sér grein fyrir því hvað var í húfi í dag. Spennustigið sást sennilega best á spilamennskunni, það gekk illa að halda boltanum en menn lögðu mikið á sig fyrir þessum stigum.“

Ásmundur vonaðist til þess að sigurinn myndi berja sjálfstrausti í leikmenn sína fyrir fallbaráttuna sem framundan er.

„Þetta er eitthvað til að byggja á en það þýðir hinsvegar ekki að stoppa hér. Við erum búnir að leggja mikið á okkur undanfarnar vikur og við þurfum að halda áfram á okkar braut.“

Freyr: Vantaði meiri töffaraskap í okkur

Freyr Alexandersson, þjálfari Leiknismanna, var furðu lostinn þegar blaðamaður hitti á hann eftir leik en þrátt fyrir að Leiknismenn hefðu haft undirtökin í leiknum tapaðist hann 2-0.

„Eins og alltaf er mjög svekkjandi að tapa leikjum. Við fáum fimmtán hornspyrnur og sautján marktækifæri í leiknum. Það var blanda af óheppni og slakri frammistöðu hjá okkur sem gerði það að verkum að við fáum ekkert úr þessu,“ sagði Freyr sem sá jákvæða punkta þrátt fyrir tapið.

„Það voru ekkert sérstakar aðstæður í dag en þrátt fyrir það sköpum við þetta mörg marktækifæri. Ég get lítið sett út á sóknarleikinn í dag en að mínu mati vantaði örlítið meiri töffaraskap í okkur. Þeir fá tvær marktilraunir og fá tvö mörk úr því, það er afar slakt hjá okkur.“

Freyr var ósáttur að Erlendur Eiríksson, dómari leiksins, dæmdi ekki brot á Gunnar Heiðar Þorvaldsson í aðdraganda fyrsta marki leiksins.

„Miðað við hvernig dæmt var í upphafi leiksins þá fannst mér vera brotið á Brynjari í fyrsta markinu en framherji þeirra má eiga það að hann kláraði færið afar vel.“

Leiknismenn eru komnir aftur í fallsæti eftir stutt stopp í 10. sæti.

„Stemmingin í hópnum er fín, við erum drullu svekktir með úrslitin í dag eftir að hafa sigrað Íslandsmeistarana í síðustu umferð en við vitum hver markmiðin okkar eru. “

0-1: 0-2:
vísir/ernir
Leiknisljónin létu vel í sér heyra.vísir/ernir



Fleiri fréttir

Sjá meira


×