Íslenski boltinn

KA nálgast toppliðin | Guðmundur Atli með þrennu í Kórnum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Elfar Árni skoraði fyrir KA gegn Fjarðabyggð.
Elfar Árni skoraði fyrir KA gegn Fjarðabyggð. vísir/stefán
Þrír leikir fóru fram í 1. deild karla í fótbolta í kvöld.

Fjarðabyggð virðist vera að fatast flugið en Austfirðingar töpuðu 2-1 fyrir KA á útivelli.

Ben Everson kom KA yfir á 14. mínútu og eftir fjögurra mínútna leik í seinni hálfleik skoraði Elfar Árni Aðalsteinsson annað mark Akureyringa. Ólafur Örn Eyjólfsson klóraði í bakkann fyrir Fjarðabyggð í uppbótartíma en nær komust gestirnir ekki.

Sigurinn var lífsnauðsynlegur fyrir KA sem er nú í 4. sæti með 22 stig, fjórum stigum frá 2. sæti deildarinnar. Liðið sem situr í því, Víkingur Ólafsvík, á þó leik inni.

Þetta var annað tap Fjarðabyggðar í röð en liðið er enn í 3. sætinu með 24 stig.

Aron Jóhannsson var hetja Hauka sem náðu í gott stig gegn Grindavík á útivelli.

Grindvíkingar, sem hafa verið á mikilli siglingu að undanförnu, voru komnir 2-0 eftir 27 mínútna leik, með mörkum Jósefs Kristins Jósefssonar og Alex Freys Hilmarssonar.

En Björgvin Stefánsson minnkaði muninn í 2-1 á lokamínútu fyrri hálfleiks með sínu níunda deildarmarki í sumar. Það var svo Aron sem jafnaði metin í 2-2, mínútu fyrir leikslok.

Haukar eru í 8. sæti deildarinnar með 17 stig en Grindavík er í því fimmta með 21 stig.

Þá vann HK 4-0 stórsigur á Selfossi í Kórnum. Þetta var fjórði sigur HK í síðustu sex leikjum.

Guðmundur Atli Steinþórsson, framherji HK, var í miklu stuði í kvöld en hann gerði þrennu. Andri Geir Alexandersson skoraði fyrsta mark HK.

Guðmundur er nú orðinn markahæsti leikmaður 1. deildar með 10 mörk en átta þeirra hafa komið í síðustu sex leikjum HK sem er í 7. sæti deildarinnar með 18 stig.

Selfoss er hins vegar í 9. sætinu með 13 stig.

Upplýsingar um úrslit og markaskorara eru fengnar frá Úrslit.net.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×