Íslenski boltinn

Jóhannes Þór: Viðbrögð leikmanna frábær

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Jóhannes Þór Harðarson, þjálfari ÍBV.
Jóhannes Þór Harðarson, þjálfari ÍBV.
Jóhannes Þór Harðarson segir að viðbrögð sinna manna við öllum atburðum síðustu vikna hafi verið góð og að því megi þakka hversu sterk liðsheild sé í hópnum.

Sjálfur varð Jóhannes Þór skyndilega frá að hverfa vegna veikinda í fjölskyldu hans en hann segir að þau mál séu að mjakast í rétta átt. Hann var í dag í fyrsta sinn á hliðarlínunni eftir að þau tíðindi bárust en ÍBV vann báða þá leiki sem hann missti af.

Aðeins nokkrum dögum eftir að Jóhannes Þór fór aftur til Noregs, þar sem fjölskylda hans býr, var Tryggva Guðmundssyni aðstoðarþjálfara sagt upp störfum fyrir að mæta á æfingu undir áhrifum áfengis.

ÍBV tapaði fyrir ÍA í dag, 3-1, en Jóhannes segir að leikmenn þurfi að rífa sig upp og koma sér aftur á rétta braut. 

„Strákarnir brugðust frábærlega við öllu því sem gerðist hér um daginn,“ sagði Jóhannes. „Þeir þjöppuðu sér saman og það hefði aldrei tekist nema með mikilli liðsheild sem ég tel að okkur hafi tekist að skapa innan hópsins. Við þurfum að byggja á því áfram.“

Jóhannes á von á því að aðkoma hans næstu vikurnar að liðinu verði með svipuðum hætti og fyrir þennan leik.

„Ég er ekki alltaf líkamlega til staðar en eins mikið og ég mögulega get. Hlutirnir eru að mjakast í rétta átt og vonandi að áður en langt um líður get ég komið aftur.“

Ítarlegra viðtal við Jóhannes sem og umfjöllun um leikinn má lesa hér fyrir neðan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×