Sport

Ein­kunna­gjöf ís­lenska lands­liðsins: Albert maður leiksins

Íþróttadeild Vísis skrifar
Albert Guðmundsson kom að þremur mörkum Íslands í kvöld. Hér skorar hann.
Albert Guðmundsson kom að þremur mörkum Íslands í kvöld. Hér skorar hann. Vísir / Anton Brink

Ísland tók á móti Aserbaísjan í fyrstu umferð forkeppni Heimsmeistaramótsins í knattspyrnu sem fram fer í Bandaríkjunum, Mexíkó og Kanada á næsta ári. Leikurinn fór 5-0 fyrir Ísland en eftir leiðinlegan fyrri hálfleik var afturbrennarinn settur í gang í þeim seinni og verkefnið klárað með sóma.

Byrjunarlið:

Elías Rafn Ólafsson, markmaður - 6

Elías átti mjög náðugan dag í fyrri hálfleik. Þurfti að grípa held ég eina fyrirgjöf fyrstu 45 mínútur leiksins. Sömu sögu var að segja í seinni hálfleik. Elías tók ekki einu sinni markspyrnu í leiknum svo róleg var vaktin.

Guðlaugur Victor Pálsson, hægri bakvörður - 8

Aserbaísjan reyndu mikið að lyfta boltanum upp vinstri vænginn sinn í sínum fáu sóknaraðgerðum en Guðlaugur var vel á verði og skallaði eða skar út þær tilraunir í gríð og erg. Þá kom hann okkar mönnum yfir í lok fyrri hálfleik með stórglæsilegum skalla.

Sverrir Ingi Ingason, miðvörður - 7

Einbeitingin uppmáluð í hjarta varnarinnar og það sem þurfti að sópa upp það var sópað upp af Sverri og Daníel Leó.

Daníel Leó Grétarsson, miðvörður - 7

Honum og Sverri virtist líða mjög vel saman í dag. Ekki mikið sem mæddi á þeim félögum en vaktin staðin með miklum sóma.

Mikael Egill Ellertsson, vinstri bakvörður - 7

Hraði hans og kraftur kom sér vel í dag. Var Mikael eins og rennilás upp og niður vinstri vænginn. Gestirnir þurftu að hafa miklar áhyggjur af honum í allt kvöld.

Ísak Bergmann Jóhannesson, djúpur miðjumaður - 9

Sprakk út sóknarlega í seinni hálfleik og í raun fyrstu 10 mínúturnar. Tvö mörk sem fóru mjög langt með að innsigla fullkominn fyrsta leik í þessari undankeppni. Af djúpum miðjumanni að vera var hann eins og gammur, mættur í markteiginn til að ná í mörkin sín og gerði það vel.

Stefán Teitur Þórðarson, djúpur miðjumaður - 7

Eins og ísbrjótur á miðjunni. Ef sendingar nálguðust miðjuna frá gestunum tók hann við þeim og kom í spil fyrir okkar menn.

Hákon Arnar Haraldsson, framliggjandi miðjumaður - 8

Var mikið í boltanum og stýrði spilinu í dag. Í seinni hálfleik var hann í því að taka úr lás hjá Aserbasían í óþökk þeirra.

Albert Guðmundsson, framliggjandi miðjumaður - 9. Maður leiksins.

Tvær fyrirgjafir sem skópu mark sitthvoru megin við hálfleikinn. Þá var hann duglegur að hlaupa á vörn gestanna þegar færi gafst á en það þurfti svo sannarlega að keyra því Aserbaísjan ætluðu ekki að hleypa upp tempóinu.

Jón Dagur Þorsteinsson, framliggjandi miðjumaður - 8

Fyrirgjafir hans í fyrri hálfleik rötuðu ekki á samherja en tvær stoðsendingar litu dagins ljós í seinni hálfleiks. Var annars alltaf ógnandi upp hægri kantinn.

Andri Lucas Guðjohnsen, framherji - 7

Fékk úr litlu að moða í teig andstæðinganna, enda umkringdur mörgum hafsentum. Átti þó hörkuskalla sem var líklega millimeter frá því að fara yfir línuna. Það hefði togað upp einkunnina. Var góður í því hlutverki að virka sem batti fyrir miðjumenn liðsins í uppbyggingu sókna liðsins.

Varamenn:

Mikael Neville Andersson kom inn fyrir Jón Dagur Þorsteinsson á 69. mínútu - 6

Kom inn af krafti og hélt uppi gæðum liðsins.

Brynjólfur Willumsson kom inn fyrir Stefán Teitur Þórðarsoná 69. mínútu - 6

Komst lítið í boltann á þeim mínútum sem hann fékk.

Daniel Guðjohnsen kom inn fyrir Andri Lucas Guðjohnsená 69. mínútu - 6

Fékk ekki úr miklu að moða eins og bróðir sinn. Átti þó rispu alveg undir lok leiks en náði ekki að hitta á rammann.

Kristian Hlynsson kom inn fyrir Albert Guðmundsson á 69. mínútu - 7

Skoraði fimmta markið. Tók við fyrirgjafastarfinu af Alberti og þakkaði traustið með því að koma boltanum í netið.

Bjarki Steinn Bjarkason kom inn fyrir Guðlaug Victor Pálsson á 78. mínútu

Spilaði of lítið til að fá einkunn.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×