Íslenski boltinn

Gummi Ben reiður: „Hvað í and­skotanum er að hjá Stjörnunni?“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Gumma Ben var ekki skemmt yfir stælunum í Stjörnunni.
Gumma Ben var ekki skemmt yfir stælunum í Stjörnunni. sýn sport

Strákarnir í Stúkunni tóku Stjörnuna til bæna eftir að Hallgrímur Jónasson, þjálfari KA, gagnrýndi skort á gestrisni hjá Garðbæingum.

Stjarnan vann sinn fjórða leik í röð þegar liðið sigraði KA, 3-2, í Bestu deild karla á sunnudaginn. Eftir leikinn kvartaði Hallgrímur yfir því hvernig Stjörnumenn taka á móti liðum á Samsung-vellinum.

„Leikskýrslan kemur trekk í trekk 45 mínútum fyrir leik á meðan við skilum skýrslunni af okkur klukkutíma fyrir leik. Þeir vökva svo bara völlinn öðru megin og hundbleyta varamannaskýlið okkar. Þetta er leiðinda hugarleikir sem er ekki mikill bragur af. Mér finnst að KSÍ eigi að taka á þessu og þetta er Stjörnunnni ekki til sóma,“ sagði Hallgrímur í samtali við Vísi.

Stúkumenn tóku undir gagnrýni Hallgríms og sögðu Stjörnumönnum að gyrða sig í þessum efnum.

„Það er óhætt að segja að Haddi væri langt frá því að vera ánægður. Mér leið í alvöru eins og hann væri reiðari yfir framkomu Stjörnunnar en nánast úrslitunum. Og skiljanlega,“ sagði Guðmundur Benediktsson.

„Ég ætla bara að henda þessu fram: Hvað í andskotanum er að hjá Stjörnunni og þeim sem stjórna þessu liði ef þeir geta hreinlega ekki drullast til að skila skýrslu á réttum tíma? Eru þeir að skoða hitt liðið áður en þeir ákveða hverjir eiga að vera inni hjá sér? Þetta gerðist 23, 24 og 25. Þetta gerist öll þessi ár sem þeir eru að stjórna þarna. Hvað í fjandanum er að þessu liði?“

Félaginu til vansa

Ólafur Kristjánsson tók við boltanum og skammaði Stjörnumenn fyrir tregðu þeirra við að skila inn leikskýrslu á réttum tíma.

„Það hefur verið leitað eftir skýringum og menn hafa verið spurðir. Þetta hefur verið óheppni eða bilun í tölvukerfi eða netsambandið í Stjörnuheimilinu hefur ekki verið nógu gott. Þetta er ekki flókið. Það er ákveðið „fair play“ í því fyrir þá sem taka þátt í deildakeppninni að skýrslum ber að skila í síðasta lagi 45 mínútum fyrir leik og það eru tilmæli að það sé klukkutíma fyrir leik. Þá skilar þú bara skýrslunni og ert ekkert í svona leik,“ sagði Ólafur.

Klippa: Stúkan - umræða um gestrisni Stjörnunnar

„Ég veit ekkert á hvern á að benda því þegar leitað er eftir svörum bendir hver á annan. Þetta er bara ekki nógu gott. Þetta er félaginu til vansa og mér finnst að menn þurfi að taka á þessu því þetta gengur aftur og aftur og aftur af því að það er ekki tekið á þessu. Það eru sameiginlegir hagsmunir allra þeirra sem taka þátt að þetta sé gert almennilega. Þú getur lifað með einhverju slysi eða bilun en síendurtekið er helvítis óheppni.“

Innslagið úr Stúkunni má sjá í spilaranum hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×