Fótbolti

Guðjón stefnir á það spila fyrsta leikinn með Stjörnunni á móti ÍBV 26. júlí

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Guðjón Baldvinsson í leik með Nordsjælland.
Guðjón Baldvinsson í leik með Nordsjælland. Vísir/Getty
Stjörnumenn eru að endurheimta einn af fótboltasonum félagsins því Íslandsmeistararnir eru að kaupa Guðjón Baldvinsson frá danska liðinu Nordsjælland eins og fram kom á Vísi fyrr í kvöld og fyrst var greint frá á vefsíðunni Fótbolti.net.

Guðjón Baldvinsson er uppalinn hjá Stjörnunni en hefur ekkert spilað með félaginu í tæp átta ár eftir að hafa reynt fyrir sér hjá bæði KR og sem atvinnumaður í Svíþjóð og Danmörku.

Vísir hefur fengið það staðfest að Guðjón sé á leiðinni í Garðabæinn en það á enn eftir að ganga frá öllum pappírum og því ólíklegt að Guðjón nái næstu leikjum Stjörnuliðsins.

Samkvæmt heimildum íþróttadeildar Vísis stefnir Guðjón sjálfur á því að spila fyrsta leikinn sinn á móti ÍBV á Samsung vellinum sunnudaginn 26. júlí næstkomandi.

Stjörnumenn eru nýkomnir heim eftir Meistaradeildarleik á móti Celtic í Glasgow í gærkvöldi og liðið mætir síðan Skagamönnum í Garðabænum á laugardaginn. Seinni leikurinn við Celtic er síðan á Samsung vellinum miðvikudaginn 22. júlí en Guðjón er ekki löglegur í þessa umferð í Meistaradeildinni.

Guðjón Baldvinsson hefur aldrei leikið með Stjörnunni í Pepsi-deildinni en hann á að baki 54 leiki með KR í efstu deild frá 2008 til 2011.

Síðasti mótsleikur Guðjóns í Stjörnubúningnum var í 1. deildinni á móti Leikni 18. september 2007 en nái Guðjón ekki Eyjaleiknum spilar Stjörnuliðið næst í Pepsi-deildinni við Leikni 5. ágúst næstkomandi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×