Fótbolti

Næstu mót­herjar Ís­lands mun ofar á heims­lista

Sindri Sverrisson skrifar
Íslenska landsliðið vann góðan 2-0 sigur gegn Svartfjallalandi fyrr í þessum mánuði en tapaði svo gegn Tyrkjum ytra.
Íslenska landsliðið vann góðan 2-0 sigur gegn Svartfjallalandi fyrr í þessum mánuði en tapaði svo gegn Tyrkjum ytra. vísir/Hulda Margrét

Íslenska karlalandsliðið í fótbolta er áfram í 71. sæti heimslista FIFA eftir 2-0 sigurinn gegn Svartfjallalandi og 3-1 tapið gegn Tyrklandi í þessum mánuði.

Ísland er því áfram á sömu slóðum og síðustu mánuði, og er fjórum sætum neðar en í september í fyrra. Hæst komst íslenska liðið í 18. sæti snemma árs 2018, í aðdraganda heimsmeistaramótsins í Rússlandi.

Ísland hefur eins og fyrr segir spilað tvo leiki í Þjóðadeild UEFA í haust og spilar í næsta mánuði tvo heimaleiki, við Wales og Tyrkland. Þau lið eru mun ofar en Ísland á heimslistanum og sigrar gegn þeim ættu því að koma Íslandi upp listann.

Wales fór upp um eitt sæti frá síðasta mánuði og er í 29. sæti listans, heilum 42 sætum ofar en Ísland. Tyrkir eru enn ofar, í 26. sætinu.

Svartfellingar, sem töpuðu fyrir Íslandi og Wales í þessum mánuði, eru hins vegar fyrir neðan Ísland, í 74. sæti.

Írarnir hans Heimis niður um fjögur sæti

Grikkland er hástökkvari listans, að minnsta kosti meðal Evrópuþjóða, eftir sigurinn gegn lærisveinum Heimis Hallgrímssonar í írska landsliðinu og gegn Finnlandi. Grikkir eru nú 48. sæti en Írar fara niður um fjögur sæti og eru í 62. sæti, einu sæti neðar en gamla liðið hans Heimis, Jamaíka.

Engin breyting er á stöðu fimmtán efstu þjóða listans. Heimsmeistarar Argentínu eru efstir, Frakkar í 2. sæti og Evrópumeistarar Spánar í 3. sæti.

Danmörk fer upp um eitt sæti og er nú á ný í hópi tuttugu efstu þjóða listans. Svíar eru í 28. sæti, Norðmenn í 47. sæti og Finnar í 64. sæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×