Íslenski boltinn

Ólafur: Jói Kalli átti að fá rautt

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Ólafur Þórðarson, þjálfari Víkings.
Ólafur Þórðarson, þjálfari Víkings. Vísir/Valli
Ólafur Þórðarson, þjálfari Víkings, var vitanlega sár og svekktur eftir 1-0 tap gegn Fylki í kvöld. Sigurmarkið kom í uppbótartíma.

„Þetta er mjög svekkjandi. Mér fannst við stjórna þessum leik frá a til ö. Við sköpuðum okkur ekki nógu mikið af færum og gerum svo ein mistök í blálok leiksins.“

Hann segir að hans menn hafi gert ágætlega þegar þeir náðu tveimur sláarskotum í leiknum en að þeir fá ekkert fyrir það þegar uppi er staðið.

„Þetta er ekki keppni í að skjóta í slána. Það þarf að koma boltanum í markið og það tókst ekki í dag.“

Það var mikil barátta í leiknum og hart tekið á því. Ólafur er ekki ósáttur við Fylkismenn en vill að dómarinn hafi betri stjórn á leiknum.

„Ég held að við hefðum átt að fá víti og verður gaman að sjá það í sjónvarpinu. Og svo átti Jói Kalli aldrei að fá að hanga inni í dag. Hann átti að fá beint rautt í fyrri hálfleik og var svo með þrjú gróf brot í seinni hálfleik sem verðskulduðu seinna gula.“

„Mér finnst það bara grín, ég get ekkert meira sagt um það.“

Hann segir að Víkingar hafa verið óheppnir í sumar. „En það skapa allir sína eigin heppni og við þurfum að gefa meira af okkur til að snúa þessu við.“

„Ég hef alltaf áhyggjur ef ég er ekki á toppnum. Þar vil ég vera. En ég er ekkert að gera í buxurnar enda ekki í fallslag. Það er fullt af gæðum í liðinu og við höfum verið að spila mjög vel. Ef við náum aðeins að einbeita okkur betur í einföldum hlutum þá kannski fer eitthvað að detta með okkur.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×