Íslenski boltinn

Gunnlaugur um gengi Skagamanna: "Það örlar á örlitlu stressi í hópnum“

Stefán Árni Pálsson skrifar
Gunnlaugur Jónsson.
Gunnlaugur Jónsson. vísir/ernir
„Ég er gríðarlega óhress með mannskapinn og mitt lið,“ segir Gunnlaugur Jónsson, þjálfari ÍA, eftir ósigurinn í kvöld.

Skagamenn töpuðu illa fyrir Fjölni, 3-0, í 32 liða úrslitum Borgunarbikarsins. ÍA hefur því tapað fjórum leikjum í röð og er í næstneðsta sæti Pepsi-deildarinnar. 

„Við erum bara ekki klárir þegar leikurinn hefst og við þurftum að lenda 2-0 undir til þess að vakna og það er bara óásættanlegt. Sérstaklega eftir tap á móti þessu sama liði á sunnudaginn, það er ekki  lengra síðan.“

Gunnlaugur vildi ekki ræða gang leiksins við sína leikmenn inn í klefa og mun bíða með það til morguns. „Maður getur bara sagt eitthvað sem maður sér eftir, svona stuttu eftir leik. Það er ljóst að liðið hefur núna tapað fjórum leikjum í röð og það er ekki ásættanlegt.“

Skagamenn mæta Fylki í næstu umferð Pepsi-deildarinnar en er komið stress í hópinn?

„Já, það örlar á örlitlu stressi í hópnum, það er ekki hægt að neita því. Við erum ekki jafn öryggir og í fyrstu leikjunum. Þetta eru fjórir tapleikir í röð, það er brekka sem við erum í og getum ekki lokað augunum fyrir þeirri staðreynd. Við þurfum að finna einhver ráð til að koma mönnum upp á tærnar.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×