Fótbolti

Þóra: Þeirra helsti sóknarmaður vill helst ekki spila vörn

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Íslenska kvennalandsliðið í knattspyrnu mætir efsta liði riðilsins, Sviss, í undankeppni HM 2015 ytra á morgun og má búast við erfiðum leik. Þóra B. Helgadóttir, landsliðsmarkvörður, segir góða stemningu í hópnum.

„Það er gríðarleg vinnsla og barátta og allir að vonast eftir plássi í byrjunarliðinu. Undirbúningurinn gengur vel og þetta lítur vel út,“ sagði Þóra við Hilmar Þór Guðmundsson, starfsmann KSÍ, eftir æfingu liðsins í dag.

Svissneska liðið er langefst í riðlinum en hefur leikið tveimur leikjum fleiri en Ísland. Sóknarleikurinn er þess helsti styrkleiki en liðið er búið að skora 28 mörk í sex leikjum. Er markvörðurinn hræddur við þá tölfræði?

„Nei, ekkert meira en varnarmenn. Þeirra styrkleiki er sóknarleikurinn en þær hafa sína veikleika líka. Okkar plan er að loka á þeirra styrkleikum og ráðast á þeirra veikleika. Freyr er búinn að vinna þeirra veikleika og vonandi gengur það upp,“ segir Þóra en hverjir eru veikleikarnir?

„Þær eru svo skiptar. Þær sækja á svo mörgum og svo kemur hola í miðjunni. Við munum reyna að nýta okkur það. Ég þekki þeirra helsta sóknarmann mjög vel og henni finnst ekkert rosalega gaman að vinna heim í vörn. Við munum nýta okkur það og skilja hana eftir.“

Allt viðtalið má sjá í spilaranum hér að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×