Fótbolti

Glódís Perla: Þær fóru nokkrar að svindla hjá þeim

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Glódís Perla Viggósdóttir var allt í einu orðin reynsluboltinn í miðri vörn íslenska liðsins þegar liðið vann 2-1 sigur á Serbíu í dag í undankeppni HM 2015.

Glódís lék við hlið Katrínar Jónsdóttur í síðasta landsleik, leikjahæstu landsliðskonu Íslands frá upphafi, en var að þessu sinni með nýliðann Önnu Björk Kristjánsdóttur við hlið sér. Glódís var sátt eftir leik.

„Ég var gríðarlega sátt við liðið okkar og þá sérstaklega í fyrri hálfleik þegar við náðum að gera allt sem við ætluðum að gera. Við ætluðum að vera brjálaðar, berjast og pressa á þær og ekki leyfa þeim að spila sinn leik. Við náðum að gera það rosalega vel," sagði Glódís Perla Viggósdóttir í viðtali við Hilmar Þór Guðmundsson, starfsmann KSÍ eftir leik.

„Við ætluðum að leyfa þeim að gefa fyrstu sendinguna en svo pressa á þær hundrað prósent allar saman," sagði Glódís.

„Í fyrri hálfleik náðu þær aldrei upp almennilegu spili eða skoti. Í seinni hálfleik duttum við til baka og þær náðu að spila aðeins framhjá okkur. Þær fóru nokkrar að svindla hjá þeim þarna frammi og þá varð þetta auðveldara fyrir þær en um leið erfiðara fyrir okkur," sagði Glódís.

„Ég var smá stressuð þegar þær skoruðu en var samt alveg viss um að við myndum klára þetta," sagði Glódís Perla en það smá sjá allt viðtalið með því að smella hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×