Innlent

Stofninn mun minni en síðustu ár

Kuldi og snjór í maí og júní hafði slæm áhrif á afkomu rjúpnastofnsins.Fréttablaðið/gva
Kuldi og snjór í maí og júní hafði slæm áhrif á afkomu rjúpnastofnsins.Fréttablaðið/gva
Rjúpnastofninn er mun minni í upphafi vetrar en hann hefur verið síðustu ár, samkvæmt talningu sérfræðinga Náttúrufræðistofnunar Íslands (NÍ). „Talningarnar í vor sýndu okkur að það var mikil fækkun um allt land,“ segir Ólafur Karl Nielsen, fuglafræðingur á NÍ. Hann segir slæmt tíðarfar og kulda í vor að auki hafa haft mikil áhrif á viðkomu rjúpunnar, með þeim afleiðingum að stofninn sé nú minni en hann hafi verið árum saman.

Hann vill ekki segja til um hvaða áhrif þetta muni hafa á veiði úr stofninum. Umsögn NÍ til umhverfisráðherra þar að lútandi verði afhent í september.

Almennt eru um átta ungar á hvert par af rjúpum að hausti, og ungar því um áttatíu prósent stofnsins. Undantekningin er helst þegar gerir hörð hret í maí eða júní.

Vorhretin í ár voru verst á Norðurlandi og er hlutfall unga í stofninum á Norðausturlandi aðeins um 71 prósent. Hlutfallið hefur aðeins einu sinni verið lægra frá því talningar hófust árið 1981. Hlutfallið var betra í öðrum landshlutum, um eða rétt undir áttatíu prósentum.- bj




Fleiri fréttir

Sjá meira


×