Skoðun

Sjávarútvegsmál og ESB aðild

Það hefur löngum legið fyrir að sameiginleg stefna Evrópusambandsríkja í sjávarútvegsmálum væri andstæð hagsmunum Íslands enda mörkuð fyrir aðstæður í Norðursjó. Utanríkisráðherra lagði mál okkar fyrir við upphaf samningaviðræðna í Brussel 27. júlí. Mikilsvert er að menn átti sig á samningsmarkmiðum Íslands til að tryggja varanleg yfirráð yfir auðlindinni samfara fullu viðskiptafrelsi. Ráðherra lagði áherslu á hið einstaka vægi sjávarútvegsins fyrir efnahagslíf þjóðarinnar og þá staðreynd að fiskveiðilögsagan liggur ekki að lögsögu nokkurs ESB-ríkis. Fiskistofnar landgrunnsins okkar eru yfirleitt staðbundnir og engin þjóð hefur veiðireynslu við Íslandsstrendur eða tilkall til neinna veiða hér skv. reglum ESB. Sértæk stjórnun okkar á eigin fiskimiðum tæki mið af sérstökum aðstæðum Íslands og væri reyndar í samræmi við reglur ESB sem má beita við stjórnun strandríkis á nálægum fiskimiðum sínum.

Það hefur margoft verið sagt að Ísland eigi fram undan erfiða samninga um að ná aðgengilegum lausnum fyrir sjávarútveginn. Verra er ef grafið er undan samningamönnum með fullyrðingum heimamanna um að samningar séu til einskis og þjóðin eigi að vera andsnúin Evrópusambandinu, eins og Morgunblaðið heldur fram. Ber væntanlega svo að skilja, að þar á bæ liggi fyrir full vitneskja um samningsniðurstöður og engin þörf á að þjóðin fái að lokum að segja sitt.

Talsmenn Evrópusambandsins hafa lýst áhyggjum yfir að því aðildarumsókn Íslands njóti þverrandi stuðnings meðal þjóðarinnar. Kallað er eftir upplýstri umræðu í stað óupplýsts hræðsluáróðurs. Er nú ekki tími til kominn að Morgunblaðið hefji á ný óhlutdræga upplýsingu um Evrópumál? Fyrsta skrefið gæti verið að taka undir þau sjónarmið varðandi sjávarútvegsmál sem utanríkisráðherra lýsti við upphaf aðildarsamninganna. Væri það þjóðhollusta og í anda þess sem segir í grein sr. Þóris Stephensen í Morgunblaðinu 28. júlí.




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×