Skoðun

Tveggja kosta völ

Þorvaldur Gylfason skrifar

Stjórnlagaþingið á tveggja kosta völ, þegar það kemur saman.

Annar kosturinn er að leggja tillögur um breytingar á stjórnarskránni fyrir Alþingi og láta þinginu eftir að leggja fram ný drög að stjórnarskrá. Þessi kostur kemur ekki til álita, þar eð Alþingi hefur áratugum saman vanrækt endurskoðun stjórnarskrárinnar og sýnir engin merki þess, að það sé nú í stakk búið til að koma sér saman um nýja stjórnarskrá.

Hinn kostur stjórnlagaþingsins er að semja fullbúna stjórnarskrá og biðja Alþingi að bera hana óbreytta undir þjóðaratkvæði. Alþingi verður vanhæft til að fjalla efnislega um tillögu stjórnlagaþingsins, þar eð nýja stjórnarskráin mun fjalla um Alþingi, meðal annars um hámarksfjölda þingmanna, sem þurfa að minni hyggju ekki að vera fleiri en 37. Alþingi á ekki að dæma um eigin sök.

Síðari kostinn er hægt að útfæra með tvennum hætti. Hægt væri að byrja með autt blað og semja nýja stjórnarskrá frá rótum líkt og Þjóðverjar gerðu 1949 og Suður-Afríkumenn 1994 með erlendri hjálp. Gallinn við þessa aðferð er, að umræðan á stjórnlagaþinginu gæti þá farið út um víðan völl og misst sjónar á tilefni þess, að stjórnlagaþingið var kvatt saman. Tilefnið er hrunið og tengdir veikleikar í stjórnskipuninni. Þess vegna sýnist mér hyggilegra að leggja upp með stjórnarskrána frá 1944 og gera á henni nauðsynlegar breytingar, sem tengjast tilefninu, en láta aðrar breytingar eiga sig að sinni.

Samband ríkis og kirkju kemur hruninu til dæmis ekki við. Þess vegna mun það flýta fyrir vinnu stjórnlagaþingsins, ef það eyðir ekki kröftum sínum í umræður um stöðu kirkjunnar. Þá getur stjórnlagaþingið einbeitt sér að því, sem mestu skiptir, og það er að skerpa á þrískiptingu valdsins, endurskoða valdmörk forseta Íslands, uppfæra kaflann um dómskerfið, setja inn ákvæði um stjórnlagadómstól, færa mannréttindaákvæðin fremst í stað þess að hafa þau aftast eins og nú er og kveða skýrt á um eignarhald þjóðarinnar á auðlindum sínum.

Þótt ótrúlegt megi virðast er ekkert ákvæði í stjórnarskránni um Hæstarétt. Alþingi gæti því upp á sitt einsdæmi lagt Hæstarétt niður eins og það fór með Þjóðhagsstofnun. Dómstólarnir þurfa að njóta verndar í stjórnarskránni, og það á einnig við um nokkrar aðrar einstakar stofnanir svo sem Fjármálaeftirlitið og Samkeppniseftirlitið. Stjórnsýslan þarf einnig á sérstökum ákvæðum að halda til að vinda ofan af nápotinu og stjórnmálaspillingunni, sem hefur gegnsýrt embættiskerfið um árabil.






Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×