Viðskipti innlent

Skipti fénu niður á fjölskylduna

Valur Grettisson skrifar

Fyrrum stjórnarformaður Byrs og fjárfestirinn Jón Þorsteinn Jónsson fékk að fara með 2,5 milljónir króna í evrum út úr landinu þann 22. desember þrátt fyrir að reglur um gjaldeyrismál kveði á um að ekki sé heimilt að fara með hámark 500 þúsund krónur úr landi í hverjum almanaksmánuði.

DV greindi frá því í morgun að tollgæslan hefði stöðvað Jón Þorstein og gert athugasemdir við mikla fjármuni sem hann var með í töskunni sinni.

Tollgæslan tók skýrslu af honum en samkvæmt heimildum Vísis var fjölskylda Jóns með honum þegar hann var stöðvaður á flugvellinum. Í ljós kom að peningarnir voru teknir út úr bankastofnun í sumar og gat Jón Þorsteinn sýnt fram á úttektarnótur sem studdi það.

Ennfremur hélt hann því fram að peningurinn væri ekki eingöngu í sinni eigu heldur skipti hann þeim niður á fjölskylduna. Þannig fóru þau ekki yfir hármark varðandi útflutning á gjaldeyri.

Jón verður því ekki sektaður vegna málsins en þess má geta að það er engin sérstök refsiábyrgð brjóti menn gegn reglum Seðlabanka Íslands um útflutning á gjaldeyri. Málinu er lokið af hálfu lögregluyfirvalda á Suðurnesjum.

Jón Þorsteinn sætti farbanni fyrr í mánuðinum vegna rannsóknar sérstaks saksóknara á sölu stofnfjárbréfa Byrs til Exeter í gegnum MP banka á síðasta ári. Sjálfur hefur Jón Þorsteinn fært lögheimili sitt til Bretlands.




Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×