Ítalskir fjölmiðlar greina frá því að varnarmaðurinn Alessandro Nesta hjá AC Milan hafi ekki komist fram úr rúminu vegna bakverkja í morgun.
Þessi frábæri varnarmaður var talinn á góðum batavegi og átti jafnvel að vera í hóp Milan fyrir grannaslaginn gegn Inter um helgina.
Hann er 32 ára gamall og hefur ekki spilað einn einasta leik fyrir Milan í vetur vegna meiðsla og hætti að spila með landsliðinu eftir HM vegna þessa.
Nesta verður að sögn ítalskra miðla sendur í ítarlega skoðun næstu daga áður en metið verður hvort hann þurfi í uppskurð.