Sport

Suns vinna kyrrahafsriðilinn

Phoenix Suns tryggðu sér í nótt sigur í kyrrahafsriðlinum í NBA deildinni í körfubolta, þegar liðið valtaði yfir Philadelphia 76ers 116-87, en á meðan töpuðu Sacramento Kings fyrir Detroit Pistons og geta því ekki náð Suns í riðlinum. Það skipti Phoenix litlu máli í nótt að vera aftur án Amare Stoudamire, sem er að jafna sig af meiðslum, því að eftir að jafnræði var með liðunum framan af, settu Suns í fluggírinn og keyrðu yfir lánlausa 76ers sem misstu Chris Webber meiddan af velli í þriðja leikhluta. Leikurinn var sögulegur fyrir þær sakir að Steve Nash náði sinni annari þreföldu tvennu á ferlinum og sinni fyrstu hjá Phoenix Suns, þegar hann skoraði 12 stig, hirti 13 fráköst og gaf 12 stoðsendingar án þess að spila nærri allan leikinn, en þess má til gamans geta að þessi lágvaxni bakvörður var kominn með 11 fráköst í fyrri hálfleik. Annar leikmaður komst í sögubækurnar í gær, en Quentin Richardson fór yfir 200 þriggja stiga körfu múrinn á tímabilinu og sló þar með félagsmet Dan Majerle, sem einmitt var viðstaddur leikinn og sló á létta strengi þegar metið féll með því að þurrka ímynduð tár af vöngum sér. Það var Shawn "The Matrix" Marion sem var atkvæðamestur Suns í leiknum í nótt og skoraði 26 stig og hirti 9 fráköst, en liðið leikur flesta af leikjunum sem eftir eru á keppnistímabilinu á heimavelli og því má telja ansi líklegt að liðið landi efsta sætinu í deildinni þegar í úrslitakeppnina er komið eftir tæpan mánuð.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×