Sport

Toppað á réttum tíma

Úrslitakeppnin í 1. deild kvenna í körfuknattleik hefst í kvöld. Í Keflavík tekur heimaliðið á móti ÍS en Haukar sækja Grindavík heim. Tvo sigurleiki þarf til að tryggja þátttökurétt í úrslitunum. Keflavíkurstúlkur hafa átt góðu gengi að fagna undanfarin ár og stefna ótrauðar á sinn þriðja Íslandsmeistaratitil í röð. Keflavík landaði einum titli í vetur er liðið vann Hópbílabikarinn. Keflavíkurstúlkur voru síðan óvænt slegnar út úr bikarkeppni KKÍ og Lýsingar af Haukum sem fóru alla leið og fögnuðu sigri í keppninni. Það er hugur í Stúdínum að komast alla leið að þessu sinni en liðið hefur mætt Keflavík tvisvar í bikar og fjórum sinnum í deild. Af þessum leikjum hefur ÍS unnið einn leik en liðið telur sig engu að síður getað toppað á réttum tíma og borið sigur úr býtum í úrslitakeppninni. Grindavík hefur átt í basli í vetur og neyddust til að skipta um erlendan leikmann stuttu fyrir úrslitakeppnina eftir að Myriah Spence þurfti frá að hverfa vegna meiðsla. Í hennar stað kom Rita Williams, fyrrum leikmaður í bandarísku WNBA-deildinni, en hún náði aðeins að leika einn leik með Grindavík í deildinni þar sem hún skoraði 17 stig, tók 8 fráköst og stal 4 boltum. Haukastúlkur skipa spútnik-lið vetrarins og hefur árangur liðsins komið á óvart. Liðið varð fyrir blóðtöku þegar Svanhvít Skjaldardóttir sleit krossbönd og verður hún ekkert meira með í vetur. Það eru þó gleðitíðindi fyrir áhangendur liðsins að Ösp Jóhannsdóttir er orðin heil heilsu og verður með gegn Grindavík í kvöld.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×