Sport

Sé ekki að Keflavík tapi

Keflavík og Grindavík eigast við í fyrstu umferð úrslitakeppni Intersportdeildarinnar í körfuknattleik á heimavelli Keflvíkinga í kvöld. Einar Bollaspon spáir í spilin fyrir Vísi. Tveir leikir eru afstaðnir og hefur hvort liðið um sig haft einn sigur. Þetta er því hrein úrslitaviðureign og liðið sem stendur uppi sem sigurvegari í kvöld tryggir sér sæti í undanúrslitum. Keflavík vann fyrsta leikinn örugglega, 101-80, en Grindavík náði að knýja fram oddaleik með því að vinna í Grindavík, 87-76. Þar vakti sterk vörn heimamanna athygli og fengu Grindvíkingar byr undir báða vængi fyrir komandi átök. "Fyrir fólk sem sá leikinn í Keflavík, hvort sem það var á staðnum eða heima í stofu, þá er það alveg með ólíkindum að Grindavík skuli hafa unnið leikinn í Grindavík," sagði Einar Bollason, fyrrum landsliðsmaður og þjálfari. "Manni dettur helst í hug að Keflvíkingar hafi haldið að þeir þyrftu ekkert að mæta." Grindvíkingar hafa átt í töluverðu basli í vetur og tveir erlendir leikmenn þurft frá að hverfa. Þá varð liðið fyrir áfalli þegar Guðlaugur Eyjólfsson ákvað að hætta að leika með liðinu í mótmælaskyni við stefnu stjórnarinnar hvað varðar erlenda leikmenn. "Auðvitað samgleðst maður Grindvíkingum af því að þetta er búið að vera mjög erfiður vetur hjá þeim. Það sást vel í leiknum hvað Helgi Jónas Guðfinnsson er mikilvægur liðinu. Grindavíkurliðið er til alls líklegt og ef Grindvíkingar bera gæfu til að nota þennan trukk sem Taylor er í miðjunni og spara skotin fyrir utan geta þeir gert ýmislegt. Ég sé nú ekki í spilunum að Keflavíkurhraðlestin tapi þessum leik. Ég held að Keflvíkingar klári þetta. Liðið missti af báðum bikartitlunum, náði að vísu deildarmeistaratitlinum, en ég held að heimamenn vinni," sagði Einar Bollason.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×