Sport

NBA í nótt

Nokkrir leikir voru á dagskrá í NBA deildinni í nótt.  Miami Heat vann sinn 10. leik í röð þegar þeir sigruðu New York Knicks á útivelli 98-96.  Það var Wade sem gerði sigurkörfu Heat á síðustu sekúndum leiksins og var stigahæstur í liði sínu með 24 stig.  Miami varð með sigrinum, fyrsta liðið í deildinni til að tryggja sig í úrslitakeppnina. Allen Iverson og Kobe Bryant háðu mikið einvígi í Philadelphia, þegar heimamenn tóku á móti Los Angeles Lakers.  Það var Iverson sem hafði betur í einvíginu og í leiknum því hann skoraði 36 stig og leiddi lið sitt til sigurs 108-91.  Iverson gaf auk þess 9 stoðsendingar í leiknum, en mótherji hans Kobe Bryant skoraði 20 stig og ljóst að Lakers liðið þarf að taka sig á ef þeir ætla að eiga möguleika á sæti í úrslitakeppninni. Stuðningsmenn Cleveland Cavaliers voru búnir að bíða lengi eftir endurkomu fyrrum leikmanns liðsins Carlos Boozer, sem skrifaði undir samning hjá Utah Jazz á vafasaman hátt í fyrra, en varð ekki að ósk sinni þegar Utah liðið kom í heimsókn í gær því leikmaðurinn varð eftir heima meiddur.  Það kom þó ekki í veg fyrir að Utah fengi óblíðar móttökur í gær, bæði innan vallar sem utan og voru gersigraðir af spræku Cleveland liði 92-73.  LeBron James fór hamförum í leiknum og þrátt fyrir að leika fáar mínútur, lauk hann leik með 36 stig.  Jerry Sloan sagði eftir leikinn að sínir menn í Utah hefðu líklega tapað leiknum með 80 stiga mun ef James hefði leikið allann leikinn. Rashard Lewis átti frábæran leik fyrir Seattle sem lagði Chicago á útivelli og skoraði 30 stig og hitti úr 11 af 14 skotum sínum í leiknum.  Seattle vann 99-93 og hefndi þar með tapsins fyrir Bulls á heimavelli sínum fyrir skömmu.  Seattle hefur nú unnið 22 af 30 útileikjum sínum í vetur, sem er ótrúlegur árangur. Minnesota náði að leggja Dallas nokkuð óvænt á útivelli, 100-91 á bak við enn einn stórleikinn frá Kevin Garnett sem skoraði 25 stig, hirti 12 fráköst og gaf 7 stoðsendingar. Þá lagði Sacramento lið Orlando 105-94 í Sacramento, þar sem Serbinn Peja Stojakovic skoraði 27 stig, en kappinn hefur valdið nokkrum vonbrigðum í vetur með slökum leik.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×