Sport

Óvissa með Einar Árna

Ekki er víst hvort Einar Árni Jóhannsson stýrir Njarðvíkurliðinu í Intersportdeildinni á næsta tímabili en liðið datt eins og kunnugt er óvænt út úr 1. umferð úrslitakeppninnar á sunnudaginn eftir tap gegn ÍR í Seljaskóla. Einar Árni tók við liðinu af Friðriki Ragnarssyni síðasta sumar og skilaði bikarmeistaratitli í hús. Óvænt tap gegn ÍR í úrslitakeppninni gerir það hins vegar að verkum að óvíst er hvort hann verði áfram með liðið. Valþór Jónsson, varaformaður körfuknattleiksdeildar Njarðvíkur, sagði í samtali við Fréttablaðið í gær að Njarðvíkingar væru enn að sleikja sárin eftir tapið gegn ÍR og þjálfaramálum hefði enn sem komið væri verið lítill gaumur gefinn. "Við förum í þessi mál fljótlega," sagði Valþór og bætti við að hann teldi stöðu Einars Árna sterka. "Það er ekki við þjálfarann að sakast - það var eitthvað annað að klikka hjá okkur," sagði Valþór. Einar Árni vildi ekki tjá sig um málið þegar Fréttablaðið ræddi við hann í gær. "Ég verð að segja pass," sagði hann.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×