Sport

Pistons og Jazz í metabækurnar

Lið Detroit Pistons sigraði Utah Jazz í NBA deildinni í nótt.  64-62 sigur meistaranna var ekki fallegur og komust liðin í metabækurnar fyrir lágt stigaskor. Meistarar Detroit máttu þakka fyrir að landa sigrinum gegn slöku liði Jazz, en Detroit skoraði ekki körfu utan af velli í fjórða og síðasta leikfjórðungnum og öll fimmtán skot þeirra fóru forgörðum.  Samanlagt stigaskor liðanna er hið fimmta lægsta í sögunni. Rússinn Andrei Kirilenko fór á kostum í leiknum og var lang besti maðurinn á vellinum.  Hann skoraði 27 stig, hirti 14 fráköst og varði 5 skot, en lét Ben Wallace hjá Detroit verja frá sér skot í lokin sem hefði geta jafnað leikinn.  Larry Brown, þjálfari Pistons sagði að sigurinn hefði verið kraftaverk, enda hitti lið hans úr aðeins 31% skota sinna í leiknum, en hafði samt sigur. Í gær varð einnig kunnugt að Brown þarf að taka sér frekara frí frá þjálfun af heilsufarsástæðum og verður frá leik í einhvern tíma, en ekki er langt síðan þjálfarinn sneri til baka á hliðarlínuna eftir að hafa farið í uppskurð á mjöðm.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×