Sport

Njarðvík úr leik, ÍR áfram

ÍR braut blað í sögu félagsins er liðið komst í undanúrslit úrslitakeppninnar í Intersportdeildinni í körfuknattleik í gær þegar liðið lagði Njarðvík, 86-83, í Seljaskóla. ÍR vann því samanlagt 2-0 og afrekið ekki síður merkilegt fyrir það leyti að 12 ár eru liðin síðan að Njarðvíkurliðið komst ekki í undanúrslit en það var árið 1993. Firnasterkur varnarleikur og góð liðsheild var lykill ÍR-inga að sigrinum en Njarðvíkingar hafa oft séð betri daga og þurfa að bíta í það súra epli að vera sópaðir út úr úrslitakeppninni í fyrstu umferð. "Sóknin skelfileg framan af og þeir hittu úr stóru skotunum. Ég hef fátt annað að segja," sagði Einar Árni Jóhannsson, þjálfari Njarðvíkurliðsins, vonsvikinn eftir tapið. Alvin Snow hefði mátt koma fyrr til liðsins en hann átti margar tilraunir til stoðsendinga sem rötuðu ekki rétta leið sökum skorts á samæfingu. "Þetta var ákvörðun sem við tókum og stöndum og greinilega föllum með henni," sagði Einar en Njarðvíkingar gripu til þess ráðs að endurnýja stöðu erlendra leikmanna hjá liðinu skömmu fyrir úrslitakeppnina. ÍR-ingar voru í skýjunum með árangurinn gegn Njarðvík. "Þetta er rosaleg tilfinningin, erfitt að lýsa þessu," sagði Ómar Örn Sævarsson, leikmaður ÍR-inga. "Þetta er í fyrsta sinn í langan tíma sem að ÍR kemst í gegnum fyrstu umferð í úrslitakeppninni og maður er bara ekki almennilega búinn að melta þetta. Það fór um mann þegar Brenton fór í gang, en hann getur hæglega klárað leiki upp á eigin spýtur. Njarðvíkurliðið er náttúrulega mjög sterkt lið og það að við skulum halda því í 83 stigum er frábært." En hvaða lið vill Ómar fá í næstu umferð? "Það skiptir engu máli." Stig ÍR: Theo Dixon 25 (7 fráköst), Grant Davis 22 (13 fráköst, 2 varin skot), Eiríkur Önundarson 21 (7 stoðsendingar, 3 stolnir), Ólafur J. Sigurðsson 8 (5 stoðsendingar), Fannar Helgason 6, Ómar Örn Sævarsson 4 (12 fráköst, 3 stolnir). Stig Njarðvíkur: Brenton Birmingham 20 (7 fráköst), Alvin Snow 18 (8 fráköst, 8 stoðsendingar), Doug Wrenn 16 (10 fráköst, 2 varin skot), Friðrik Stefánsson 12 (10 fráköst, 4 varin skot), Páll Kristinsson 10, Halldór Karlsson 4, Guðmundur Jónsson 3,.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×