Sport

Fimmti tapleikur Snæfells í röð?

KR-ingar geta slegið út Snæfell í öðrum leik liðanna í átta liða úrslitum úrslitakeppni Intersportdeildar karla en leikurinn fer fram klukkan 16.00 í DHL-höllinni í dag. Á sama tíma geta Íslandsmeistarnir úr Keflavík einnig komist áfram og jafnframt slegið nágranna sína í Grindavík út þriðja árið í röð og þá alltaf á þeirra eigin heimavelli í Röstinni í Grindavík. KR vann fyrsta leikinn í Hólminum með þriggja stiga sigurkörfu Aarons Harper 7 sekúndum fyrir leikslok en Harper hefur nú tryggt sínu liði sigur tvo leiki í röð. KR-ingar ættu að vera reynslunni ríkari. Fyrir ári síðan voru þeir í sömu stöðu, unnu fyrsta leik átta liða úrslitanna í Grindavík, 95-99 , en töpuðu síðan næstu tveimur og duttu út. Í heimaleiknum skoraði Grindavík 42 stig í fyrsta leikhluta sem liðið vann með 29 stigum og leikinn á endanum með 13 stigum, 95-108. Grindavík vann síðan oddaleikinn í Grindavík með fimm stigum, 89-84. KR er fimmtánda liðið sem nær að stela sigri í fyrsta leik á útivelli í sögu úrslitakeppninnar í þeim einvígum sem tvo sigra hefur þurft til að komast áfram. KR-ingar eru að ná þessu í sjötta sinn sem er það langmesta sem eitt félag hefur afrekað en 11 af 14 liðum sem vinna fyrsta leik á útivelli hafa komist áfram. KR á tvö af þessum þremur skiptum sem það hefur mistekist, i fyrra og svo í undanúrslitum gegn Keflavík 1991. Snæfellingar settu met í fyrra þegar þeir unnu sex fyrstu leiki sína í sömu úrslitakeppni en síðan þá hefur gengi liðsins gjörbreyst og hefur liðið nú tapað fjórum leikjum í röð í úrslitakeppni, þremur gegn Keflavík í úrslitunum í fyrra og svo fyrsta leik átta liða úrslitanna gegn KR í fyrrakvöld. Nú reynir á liðið sem er komið upp að vegg og má ekki misstíga sig oftar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×