Sport

76ers í vandræðum

Lið Philadelphia 76ers í NBA deildinni er í vandræðum þessa dagana og tapaði illa fyrir lágt skrifuðum Golden State Warriors í nótt. Heimamenn í 76ers sáu aldrei til sólar í leiknum og töpuðu 104-85, þrátt fyrir 33 stig frá Allen Iverson, sem þrátt fyrir að vera lang stigahæstur í liðinu, setti vafasamt félagsmet með því að tapa boltanum 12 sinnum í leiknum. Í liði gestanna var Jason Richardson stigahæstur með 22 stig og Mike Dunleavy Jr skoraði 21.  Liði Golden State gengur allt í haginn þessa dagana, eftir að hafa fyrir skömmu fengið til liðs við sig leikstjórnandann Baron Davis og virðist hann hafa hleypt nýju blóði inn í leik liðsins. Chris Webber á enn í miklum vandræðum með að fóta sig í liði Philadelphiu og náði sér alls ekki á strik í gær, hitti aðeins úr þremur af tólf skotum sínum utan af velli og var settur á tréverkið.  Hann hafði fyrir leikinn átt fund með þjálfara sínum til að kvarta yfir ónógum spilatíma, en óvíst er að leikur hans í gær verði máli hans til stuðnings. Áhorfendur í Philadelphia bauluðu á Webber í gær og eru ósáttir við framlag hans síðan hann kom frá Sacramento í lok síðasta mánaðar, en það var von heimamanna að hann myndi gera liðið enn betra.  Það er því ljóst að Webber á ekki sjö dagana sæla í Philadelphia þessa dagana og verður að taka sig á ef hann á ekki að falla í ónáð hjá kröfuhörðum stuðningsmönnum liðsins.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×