Sport

WNBA-stjarna til Grindavíkur

Kvennalið Grindavíkur hefur styrkst mikið fyrir lokaátökin í baráttunni um Íslandsmeistarabikarinn í kvennakörfunni. Grindavík hefur nefnilega ráðið til sín 29 ára bakvörð, Ritu Williams, sem hefur leikið 186 leiki í bestu deild í heimi, kvennadeild NBA. Myriah Spence varð að hætta að spila vegna slæmra ökklameiðsla og kemur Rita til með að fylla í skarðið. Williams var meðal annars valin í Stjörnuleik deildarinnar 2001 þegar hún skoraði 11,9 stig að meðaltali fyrir Indiana Fever en var stigalaus á þeim 9 mínútum sem hún spilaði í leiknum. Williams reyndi að komast að hjá verðandi NBA-meisturum í Seattle Storms en tókst ekki. Hún stefnir á að komast í leikmannahóp Phoenix Mercury í sumar og er Íslandsferðalag hennar hluti af undirbúningnum. Williams er 168 sm skotbakvörður að upplagi en hefur einnig leyst vel stöðu leikstjórnanda. Í þeim 186 leikjum sem hún hefur spilað í kvennadeild NBA hefur Rita skorað 6,4 stig að meðaltali á 21,7 mínútum auk þess að gefa 2,2 stoðsendingar og taka 2 fráköst í leik.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×