Sport

Hildur góð en Jamtland úr leik

Góður leikur Hildar Sigurðardóttur dugði ekki liði hennar Jämtland í sænsku úrvalsdeildinni um helgina en eftir tveggja stiga tap liðsins gegn Växjö Queens á laugardaginn er ljóst að liðið kemst ekki í úrslitakeppnina sem var stefna liðsins í upphafi vetrar. Hildur stóð sig mjög vel í þessum jafna og spennandi leik en hún var með 23 stig og 11 fráköst. Hildur hefur skorað 12,3 stig og tekið 6,5 fráköst að meðaltali í vetur með Jamtland sem er í 9. sæti deildarinnar með 6 sigra og 14 töp en aðeins tvær umferðir eru eftir af deildinni. Samningur Hildar og Jamtland er runninn út  og verður ekki endurnýjaður af fjárhagsástæðum félagsins en Hildur hefur samt ákveðið að klára tímabilið og spila tvo síðustu leikina kauplaust. Bandaríski leikmaður liðsins Dionne Brown er hins vegar á heimleið en Jamtland á eftir að leika við neðsta liðið í Sallen Baskets og svo gegn liði 08 Stockholm HR sem er í sjötta sæti deildarinnar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×