Sport

Helena fór fyrir Haukunum

Helena Sverrisdóttir lagði grunninn að sigri Hauka á Grindavík í hádramatískum úrslitaleik kvenna í gær með frábærum alhliða leik. Helena skoraði 22 stig, gaf ellefu stoðsendingar og tók níu fráköst og stóðst pressuna á ögurstundu þegar hún setti niður tvö vítaskot þegar 5 sekúndur voru eftir af leiknum. Grindavík fékk reyndar tækifæri til að jafna leikinn á síðustu sekúndu leiksins en þriggja stiga skot Myriah Spence rétt geigaði. "Þetta var alltof mikil spenna. Við ætluðum ekki að gera þetta svona rosa jafnt. En þetta sleppur - við unnum," sagði Helena skælbrosandi í samtali við Fréttablaðið að leik loknum í gær. "Við vissum það að við erum með langfljótasta liðið í deildinni og við lögðum upp með það að keyra þær niður strax frá byrjun og það skilaði okkur sigri á endanum," bætti Helena við. Leikurinn í gær bauð upp á allt sem prýða þarf góðan körfuboltaleik, mikinn hraða og baráttu, gríðarlega stemningu á pöllunum og síðast en ekki síst hrikalega spennu. Haukar byrjuðu leikinn miklu betur og pressuðu lið Grindavíkur stíft. Vörn Hauka var gríðarlega öflug í fyrsta leikhluta og skilaði hún liðinu fjölmörg hraðaupphlaup sem títtnefnd Helena leiddi oftast nær af stakri snilld. Pálína Gunnlaugsdóttir spilaði mjög öfluga vörn á Erlu Reynisdóttir, leikstjórnanda Grindavíkur, sem olli því að liðið náði aldrei neinum takti í sóknarleiknum. Að loknum fyrsta leikhluta var staðan 22-14 Haukum í vil og héldu yfirburðirnir áfram í öðrum leikhluta. Mestur varð munurinn 18 stig, 34-16, þegar 16 mínútur voru búnar af leiknum. Grindavíkurstúlkur vöknuðu aðeins til lífsins undir lok fyrri hálfleiks og náðu að minnka muninn í 36-27 áður en flautað var til hálfleiks. Þegar tvær mínútur voru liðnar af síðari hálfleik fékk Ebony Shaw sína fjórðu villu hjá Haukum og tók Agúst Björgvinsson þjálfari hana skiljanlega af leikvelli. Við það riðlaðist leikur Hauka, Grindvíkingar gengu á lagið og í upphafi fjórða leikhluta höfðu þær jafnað leikinn 52-52. Eftir það var leikurinn í járnum allt til enda og var um tíma nánast um einvígi tveggja leikmanna að ræða, þeirra Helenu hjá Haukum og Spence hjá Grindavík. Hlutirnir gerðust hratt á lokamínútunum en sem fyrr segir voru það Haukastúlkur sem höfðu betur á endanum. Auk Helendu átti Pálína fínan leik hjá Haukum og þótt Shaw hafi oft leikið betur skiptir nærvera hennar inni á vellinum miklu málið fyrir liðið. Hjá Grindavík var Spence yfirburðaleikmaður, skoraði 33 stig og hélt Grindavík inn í leiknum allt til enda nánast upp á sitt einsdæmi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×