Sport

Fjölnir ætlar sér að fylla Höllina

Fjölnismenn sætta sig ekki við neitt annað en að Laugardalshöllin verði full út úr dyrum á úrslitaleiknum í Bikarkeppni KKÍ og Lýsingar sem fram fer næsta sunnudag en þetta er fyrsti úrslitaleikurinn í sögu félagsins. "Við erum með hátt í 20 þúsund manna hverfi í í kringum Fjölni og vitum að í hverfinu er mikill íþróttaáhugi og treystum á að Gravarvogsbúar láti ekki sitt eftir liggja," segir Jón Oddur Davíðsson formaður Körfuknattleiksdeildar Fjölnis. "Svo treystum við á að allir körfuknattleiksáhugamenn á höfuðborgarsvæðinu styðji okkur gegn Suðurnesjarisanum. Þetta ætti að geta orðið frábær leikur, Suðurnes gegn Reykjavík," bætir Jón Oddur við en Fjölnismenn ætla að láta sína stuðningsmenn vera vel sjáanlega í Höllinni.. "Þetta er stærsti einstaki leikur tímabilsins í körfuboltanum og það er algjört ævintýri að vera allt í einu komnir í þennan leik sem alla dreymir um að fá að spila einhvern tímann á ferlinum. Það verður mikið um dýrðir í Höllinni og mikið fjör. Við ætlum að gefa boli þeim 300 sem mæta fyrstir, við verðum með trommur og fleira og þetta verður örugglega svakalega skemmtilegt hvernig sem leikurinn fer en við ætlum samt að vinna," segir Jón Oddur að lokum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×