Innlent

Fimm hand­teknir grunaðir um skipu­lagðan þjófnað

Silja Rún Sigurbjörnsdóttir skrifar
Einn kastaði þvagi á lögreglustöðina við Hverfisgötu.
Einn kastaði þvagi á lögreglustöðina við Hverfisgötu. Vísir/Vilhelm

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu handtók fimm einstaklinga sem grunaðir eru um þjófnað í fjölda verslana. 

Í dagbók lögreglu kemur fram að óskað var aðstoðar lögreglu vegna þjófnaðar úr matvöruverslun. Er lögreglumenn komu á vettvang voru þar fimm að verki. Tveir þeirra reyndu að komast undan án árangurs.

„Við nánari skoðun kom í ljós að einstaklingarnir eru grunaðir um þjófnað í fleiri verslunum með skipulögðum hætti og voru þau öll handtekin og vistuð í fangaklefa í þágu málsins,“ segir í dagbókinni.

Yfir hundrað mál eru skráð í kerfinu frá fimm í nótt til fimm síðdegis. Sex eru vistaðir í fangageymslu lögreglu.

Kastaði þvagi á lögreglustöð

Lögreglan sektaði karlmann fyrir brot á lögreglusamþykkt fyrir Reykjavíkurborg en maðurinn ákvað að kasta þvagi á lögreglustöðina á Hverfisgötu. Öryggismyndavélar sem eru staðsettar við lögreglustöðna náðu athæfinu á upptöku.

Þá var óskað eftir aðstoð lögreglu vegna karlmanns sem gekk berserksgang á hóteli. Hann var handtekinn grunaður um eignaspjöll og vörslu fíkniefna. Einnig barst lögreglu tilkynning um karlmann í annarlegu ástandi að skalla ljósastaur. Maðurinn er grunaður um vopnalagabrot en var fluttur á bráðamóttöku til frekari skoðunar sökum ástands.

Reyndi að framvísa röngu ökuskírteini

Lögreglan í Hafnarfirði hafði afskipti af ökumanni sem er grunaður um að hafa ekið á 134 kílómetra hraða þar sem hámarkshraði er 80 og undir áhrifum ávana- og fíkniefna. Þá er hann einnig ekki með ökuréttindi en reyndi að framvísa ökuskírteini annars manns.

Í Kópavogi var óskað eftir aðstoð lögreglu vegna viðskiptavinar verslunar sem var ógnandi og að valda eignaspjöllum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×