Skoðun

Ég er til­búinn!

Birkir Snær Brynleifsson skrifar

Ég heiti Birkir Snær Brynleifsson, er 22 ára Hafnfirðingur, laganemi og formaður Orators og býð mig fram í 4. – 5. sætið í prófkjöri sjálfstæðismanna í Hafnarfirði hinn 7. febrúar næstkomandi. Ég er Hafnfirðingur í húð og hár, ann bænum mínum og get vart ímyndað mér betri stað til þess að búa á.

Á nýjungum er ungs manns augað! Þrátt fyrir ungan aldur tel ég mig hafa reynslu, þekkingu og nógu sterka sannfæringu um hvar sé hægt að gera samfélagið okkar í Hafnarfirði enn betra með því að koma auga á nýjungar – því lengi má gott bæta.

Það er gott að búa í Hafnarfirði. Sagt og staðið! Orð Gunnars Birgissonar, bæjarstjóra í Kópavogi, koma vissulega upp í hugann en hann sagði með sinni djúpri röddu „að það væri gott að búa í Kópavogi“. Þetta er það vel mælt hjá Gunnari að ég og fleiri teljum að þetta hljóti að vera tökufrasi frá gömlum gaflara.

En að öllu gríni slepptu þá kann fólk að velta því fyrir sér hvort reynsla mín sé næg, enda er ég að stíga mín fyrstu skref í pólitík. Það eru eðlilegar vangaveltur. En því er til að svara að reynsla mín liggur einmitt í því að hafa verið virkur hluti af samfélagi okkar Hafnfirðinga þótt ungur sé að árum.

Ég hef gengið hér í skóla og iðkað mínar tómstundir. Ég lærði á gítar í Tónlistarskóla Hafnarfjarðar, spilaði fótbolta með FH og handbolta með Haukum. Það er tvenna sem ekki margir geta státað af og hlýtur að teljast ágætur samnefnari í augum Hafnfirðinga þegar á hólminn er komið í bæjarpólitíkinni.

Það að hafa alist upp í Hafnafirði og haft brennandi áhuga á samfélaginu í bænum hefur mótað mig og gefið mér skýra sýn á það hvernig það er að búa í Hafnarfirði, hvað bærinn hefur upp á að bjóða, og eftir hverju við unga fólkið sækjumst.

Það er einmitt þetta sjónarhorn sem ég tel svo verðmætt – sjónarhorn ungs einstaklings sem þekkir skólakerfið, tómstundastarfið og hið daglega líf í bænum af eigin raun. Lífið er góður kennari. Það er út frá þeirri reynslu sem ég vil meta hvað sé gott og hvað megi betur fara.

Þegar rætt er um velferð barna og ungmenna tel ég afar mikilvægt að tómstundastarf sé öflugt. Tómstundir gegna lykilhlutverki í félagslegum þroska barna, stuðla að heilbrigðu samfélagi og veita ungmennum tilgang og gleði. Því er sérstaklega ánægjulegt að frístundastyrkur hafi hækkað í 65.000 krónur árið 2026.

En þegar horft er til málefna ungs fólks í heild skiptir máli að grunnstoðir samfélagsins séu sterkar.

Árangur er aldrei endanlegur og það þarf hugrekki til að halda áfram. Uppbygging er lykilatriði í bæjarfélagi sem vill vaxa og blómstra. Hafnarfjörður hefur staðið sig vel en það er ekki sama hverjir stjórna; það er auðvelt að staðna og fara á mis við nýjungar.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur sýnt fram á það í meirihluta að hröð uppbygging sem lagar sig að vilja bæjarbúa liggur í því að hafa einfalt regluverk og skilvirkt skipulag sem hægt er að treysta á og mætir þörfum bæjarbúa.

Kerfið á að aðlagast fólkinu sem vinnur í því – ekki fæla það frá.

Einfalt regluverk og minni afskipti stjórnvalda af atvinnurekstri eru þau grunngildi sem ég stend fyrir og hef alltaf gert. Ég trúi því að með áherslu á verðmætasköpun styrkjum við samfélagið í heild og að með hraðri, einfaldri og skilvirkri uppbyggingu komum við til móts við ungt fólk.

Hafnarfjörður býr yfir stórkostlegum tækifærum sem mörg önnur bæjarfélög státa ekki af; tækifærum sem við megum hvorki hunsa né óttast að nýta.

Ungt fólk vill setjast að í Hafnarfirði.

Ég veit hvar hjörtu ungs fólks slá – og er tilbúinn! Tilbúinn til að leggja mig allan fram og vinna að framförum, nýjungum og heill þessa góða bæjarfélags sem ég hef alist upp í. Þess vegna bið ég um stuðning allra sjálfstæðismanna í Hafnarfirði í prófkjörinu 7. febrúar.

Höfundur býður sig fram í 4. – 5. sætið í prófkjöri Sjálfstæðismanna í Hafnarfirði.




Skoðun

Skoðun

Fimm rang­færslur um Byrjendalæsi

Gunnar Gíslason,Guðmundur Engilbertsson,Jenný Gunnbjörnsdóttir ,Ragnheiður Lilja Bjarnadóttir,Rannveig Oddsdóttir,Rúnar Sigþórsson skrifar

Skoðun

Hvað er velsældar­hag­kerfið?

Kristín Vala Ragnarsdóttir,Ásgeir Brynjar Torfason,Brynhildur Davíðsdóttir,Dóra Guðrún Guðmundsdóttir,Silja Elvarsdóttir skrifar

Sjá meira


×