Lífið

Þú færð ekki leik­skóla­pláss en svona á að halda barna­af­mæli

Sif Sigmarsdóttir skrifar
Sif Sigmarsdóttir er með vikulega pistla á Vísi.
Sif Sigmarsdóttir er með vikulega pistla á Vísi. Vísir/Sara Rut

Ert þú sama manneskja í dag og þú varst í gær? Samkvæmt bandaríska félagssálfræðingnum Daniel Gilbert nálgumst við framtíðarútgáfuna af sjálfum okkur eins og börnin okkar.

„Í hvert sinn sem við sækjumst eftir einhverju – stöðuhækkun, hjónabandi, nýjum bíl, ostborgara – væntum við þess að sú manneskja sem ber fingrafar okkar eftir sekúndu, mínútu, dag eða áratug verði okkur þakklát fyrir þær fórnir sem við færðum,“ segir Gilbert.

En viðbrögð þessa framtíðarfólks eru oft önnur en við ætluðum.

„Við þrælum okkur út til að veita þeim allt það sem við teljum þau þrá en svo segja þau upp vinnunni, safna hári, flytja til eða frá San Francisco og spyrja hvernig við gátum verið svona vitlaus að halda að þetta væri það sem þau vildu.“

Meint skuggaleg fortíð frambjóðanda

Nýverið tilkynnti Pétur Marteinsson, rekstrarstjóri og fyrrverandi knattspyrnumaður, um að hann hygðist gefa kost á sér gegn sitjandi borgarstjóra í oddvitasæti Samfylkingarinnar í Reykjavík fyrir næstu borgarstjórnarkosningar.

Pétur Marteinsson hefur verið gagnrýndur fyrir að vera ekki sami maður og hann var árið 2009.Aðsend/Skúli Hólm

Andstæðingar Péturs voru ekki lengi að grafa upp meint hneyksli úr fortíð hans: Pétur hafði skipað níunda sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík norður í alþingiskosningum árið 2009.

Rannsóknir benda til þess að persónuleiki okkar, gildi og smekkur taki stöðugum breytingum; að ekkert okkar sé sama manneskja í dag og við vorum í gær, í síðustu viku eða á síðasta áratug.

Sú krafa virðist hins vegar gerð til frambjóðenda til borgarstjóra að þeir hafi ekki tekið breytingum síðustu sautján ár.

En í stað þess að fordæma þá sem eru aðrir menn í dag en þeir voru árið 2009 mættu fleiri íhuga að tileinka sér sveigjanleika Péturs.

Foreldrar sættu gæsluvarðhaldi

Undirrituð er ekki sama manneskjan í dag og hún var í gær. Í morgun vaknaði ég eftir hamskipti. Ég hafði þó ekki breyst í bjöllu eins og sölumaðurinn Gregor Samsa í bók Kafka heldur lítinn Heimdelling.

Ástæða umbreytingarinnar var frétt sem ég las áður en ég fór að sofa.

Í lok síðasta árs vöktu leiðbeiningar Reykjavíkurborgar um hvernig standa ætti að barnaafmælum kurr. Mæltist borgin til þess að ekki væri boðið í afmælisveislur grunnskólabarna eftir kyni, því slíkt væri „útilokandi“ og ynni „gegn markmiðum jafnréttislaga“, heldur væri annað hvort öllum bekknum boðið eða bekknum skipt upp í minni „afmælishópa“.

Svona á að halda barnaafmæli.Vísir/Samsett

Leiðbeiningarnar voru hafðar að háði og spotti og lagði borgarfulltrúi Framsóknarflokksins fram tillögu um að þær yrðu endurskoðaðar.

En unnendur einþykkni þurfa ekki að örvænta. Borgin er sú sama í dag og hún var í gær: „Afmælistilmæli borgarinnar standa óhögguð,“ kvað í fyrirsögn mbl.is í kjölfar þess að tillögunni var vísað frá.

Nú er ég ekki með diplóma í opinberri stjórnsýslu. En sem móðir þriggja barna er ég með doktorspróf úr skóla lífsins í hagnýtri viðburðastjórnun á grunnskólastigi og ætla að leyfa mér að fullyrða að:

a) Flestir foreldrar sættu glaðir gæsluvarðhaldi fyrir grun um að brjóta jafnréttislög til að komast hjá því að skemmta heilum bekk af skólafélögum barna sinna.

b) Þeir sem telja að það muni leiða til friðsamlegrar niðurstöðu að skipta börnum niður í afmælishópa: 1) eiga ekki börn 2) hafa ekki lesið Lord of the Flies.

Á þeim tuttugu árum sem ég hef skrifað pistla um samfélagsmál hef ég aldrei notað f-orðið. En nú get ég ekki setið á mér: Hvílík forræðishyggja!

Að stjórnsýslustofnun, sem hefur ekki bolmagn til að bjóða ásættanlega leikskólaþjónustu, skuli telja sig í aðstöðu til að segja foreldrum hvernig þeir eigi að halda barnaafmæli, kallar fram í manni frumstæða löngun til að hrópa eitthvað um „báknið“. Kannski að næsti pistill fjalli um það hvort ekki eigi að selja áfengi í matvöruverslunum.

Vegurinn til helvítis

Samkvæmt nýjustu könnun Maskínu er meirihlutinn í borginni fallinn. Fylgi Sjálfstæðisflokksins eykst hins vegar og mælist þrjátíu og eitt prósent.

Framganga borgarstjórnarmeirihlutans nú um stundir breytir því fleirum en undirritaðri í litla Heimdellinga.

Vegurinn til helvítis er markaður góðum ásetningi. Sjálfsagt er að fyrirgefa borgarstjórn vanhugsaðar en vel meinandi veisluráðleggingar, sem virðast hafa fundist í akademísku skúmaskoti í einhverjum tilgátufræðum. Það er hins vegar ófyrirgefanlegt að stjórnendur borgarinnar sjái ekki að sér þegar fánýti og fáránleiki þeirra blasir við og skili plagginu þangað sem það á heima: Í ritgerð nemanda á félagsvísindasviði Háskólans.

Rannsóknir sýna að við breytumst öll, sama hvort við ætlum okkur það eða ekki. Ef marka má skoðanakannanir mun borgarstjórn senn taka breytingum sama hvað núverandi valdhafar spyrna við fótum.


Tengdar fréttir

Pétur fer á móti borgarstjóra og vill fyrsta sætið í Reykjavík

Pétur Marteinsson, rekstrarstjóri og fyrrverandi knattspyrnumaður, ætlar að gefa kost á sér í oddvitasæti Samfylkingarinnar í Reykjavík fyrir næstu borgarstjórnarkosningar. Þar fer hann á móti Heiðu Björg Hilmisdóttur, núverandi oddvita og borgarstjóra.

Reynslan hafi breytt sér úr ungum hægrimanni í klassískan krata

Pétur Marteinsson, sem sækist eftir oddvitasæti Samfylkingarinnar í Reykjavík, segir að fjölbreytt reynsla sín í gegnum tíðina hafi breytt honum úr hægri frjálshyggjumanni yfir í klassískan jafnaðarmann. Hann vilji meðal annars valdefla unga fólkið, einkum unga karlmenn, og klára „leikskólabyltinguna“ í samstarfi við ríkisstjórn Kristrúnar Frostadóttur, verði honum falið að leiða Samfylkinguna í borginni. Hann fer þó varlega í að gera kosningaloforð en segist munu láta verkin tala.

Pétur verið lengur en hún í stjórnmálum

Oddviti Samfylkingarinnar í Reykjavík segir það ekki endilega hafa komið sér á óvart að Pétur Marteinsson bjóði sig fram á móti henni í ljósi umræðunnar síðustu daga um hugsanlegt framboð hans. Hún fagni öllum sem vilji taka þátt í baráttunni fyrir jöfnuði og betri borg.

Neitar að hafa sigað lögmönnum borgarinnar á Pétur

Borgarstjóri Reykjavíkur neitar því að hafa sigað lögmönnum borgarinnar á mótframbjóðanda sinn í oddvitaslag Samfylkingarinnar fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar. Mótframbjóðandinn gefur lítið fyrir athugun lögmannanna á lóðum sem voru í eigu félags hans, málið skipti hann engu máli.

Baráttan um Samfylkinguna í borginni nálgast suðumark

Samfylkingin hefur samkvæmt síðustu alþingiskosningum og skoðanakönnunum verið stærsti flokkur Íslands á landsvísu. Eftir að Kristrún Frostadóttir formaður flokksins tók við stjórnartaumum virðist ekkert lát á vinsældunum hans. En hvað má ráða í komandi prófkjöri Samfylkingarinnar í borginni? Þar virðist ýmislegt rekast á annars horn.

Enginn njósni um barnaafmæli borgarinnar

Þórhildur Elínardóttir Magnúsdóttir, sérfræðingur á mannréttindaskrifstofu Reykjavíkurborgar, segir leiðbeiningaskjal um barnaafmæli sem finna má á heimasíðu borgarinnar ekki gert til að stýra því hvernig foreldrar halda afmælisveislur. Það hafi verið ákall um viðmið sem léttu undir með foreldrum og tryggðu að afmælisveislur væru ekki útilokandi.

Ný könnun sýnir meirihlutann fallinn í borginni

Fylgi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavíkurborg eykst samkvæmt nýrri könnun Maskínu og mælist nú þrjátíu og eitt prósent. Fylgið hefur verið á uppleið síðan í júní þegar það var tuttugu og fimm prósent. Samkvæmt könnuninni er meirihlutinn í borginni fallinn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.