Viðskipti innlent

Síðasta Heilsu­húsinu brátt lokað

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Rekin hefur verið verslun undir nafni Heilsuhússins í Kringlunni um árabil.
Rekin hefur verið verslun undir nafni Heilsuhússins í Kringlunni um árabil. Já.is

Heilsuhúsinu í Kringlunni verður lokað þann 1. febrúar næstkomandi. Það er í eigu Lyfju en framkvæmdastjóri segir ástæðuna fyrir lokuninni vera erfið rekstrarskilyrði. Vörumerkið muni lifa áfram á netinu, vörur seldar á samnefndri vefsíðu Heilsuhússins og þær jafnframt áfram seldar í apótekum Lyfju.

Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag. Þar segir Karen Ósk Gylfadóttir framkvæmdastjóri Lyfju að ákvörðunin um lokunina hafi ekki verið léttvæg.

Á síðustu árum hafi markaðurinn með lífrænar og hollari vörur breyst mikið, þær séu nú mun aðgengilegri í íslenskum dagvöruverslunum en áður. Aukin samkeppni hafi þyngt rekstur Heilsuhússins.

Rifjað er upp í Morgunblaðinu að Heilsuhúsið eigi sér fimmtíu ára sögu en fyrsta verslun þess var opnuð á Skólavörðustíg árið 1979 en Örn Svavarsson stofnaði fyrirtækið Heilsu sem rak verslunina árið 1973. Lyfja keypti síðar Heilsu árið 2005.

Þá voru reknar þrjár verslanir í Reykjavík og Kópavogi og bættust síðar við verslanir á Selfossi og Akureyri. Þeim verslunum var lokað árið 2022 og var verslunin í Kringlunni sú síðasta sem enn var opin.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×