Fótbolti

Carlo Ancelotti sagði honum að fara frá Real Madrid

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Carlo Ancelotti gefur hér Endrick góð ráð í leik þegar þeir voru báðir hjá Real Madrid en Endrick hefur verið út í kuldanum síðan að Ancelotti yfirgaf félagið.
Carlo Ancelotti gefur hér Endrick góð ráð í leik þegar þeir voru báðir hjá Real Madrid en Endrick hefur verið út í kuldanum síðan að Ancelotti yfirgaf félagið. Getty/Angel Martinez

Brasilíski framherjinn Endrick leitaði ráða hjá fyrrverandi þjálfara sínum hjá Real Madrid, Carlo Ancelotti, áður en hann gekk til liðs við franska félagið Lyon á lánssamningi út tímabilið.

Hinn nítján ára gamli Endrick sló í gegn undir stjórn Ancelotti en hefur lítið spilað á þessu tímabili undir stjórn Xabi Alonso, sem tók við af Ancelotti síðasta sumar.

„Já, ég ræddi við Carlo um þetta. Hann gaf mér leiðbeiningar um hvað ég gæti gert, hvað ég þyrfti að gera til að bæta mig, og það hafði mikil áhrif á mig,“ sagði Endrick þegar hann var kynntur hjá Lyon.

Fara þangað sem ég gæti spilað

„Ráð hans var að fara frá Real Madrid, að spila, að þróa fótboltann minn, að fara þangað sem ég gæti spilað, þar sem ég gæti verið hamingjusamur. Þessi ákvörðun er auðvitað mín, en Carlo átti þátt í henni, því hann er frábær þjálfari,“ sagði Endrick.

Endrick spilaði aðeins þrjá leiki fyrir Madrid á þessu tímabili. Í stað þess að vera bitur yfir því sagðist hann hafa nýtt tímann vel.

Hef haft tíma til að vera með konunni minni

„Nei, satt best að segja, það sem ég segi við mína nánustu er að þetta hafi verið bestu mánuðir ferils míns,“ sagði Endrick í gegnum túlk. 

„Vegna þess að ég hef haft tíma til að vera með konunni minni, til að byggja upp heimili mitt og líf mitt,“ sagði Endrick.

Endrick gengur til liðs við Lyon sem er á uppleið undir stjórn portúgalska þjálfarans Paulo Fonseca og er í fimmta sæti í frönsku deildarinnar, aðeins tveimur stigum frá þriðja sætinu. Nærvera Fonseca hjá félaginu var einnig áhrifavaldur.

Ég veit hvernig þeir vinna

„Sú staðreynd að þjálfarateymið sé portúgalskt er mjög góð, því ég var þegar þjálfaður af portúgölskum þjálfara, Abel Ferreira, hjá Palmeiras. Það er gott fyrir mig, því ég veit hvernig þeir vinna. Það var plús,“ sagði Endrick.

Á síðasta tímabili undir stjórn Ancelotti, sem er nú þjálfari brasilíska landsliðsins, skoraði Endrick sjö mörk í 37 leikjum og vakti athygli fyrir hraða sinn og knatttækni.

Hann gæti unnið með Ancelotti aftur síðar á þessu ári á heimsmeistaramótinu. Endrick skoraði þrjú mörk fyrir Brasilíu á síðasta ári, þar á meðal gegn Englandi og Spáni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×