Erlent

Fall­hlífin flæktist í stélið

Samúel Karl Ólason skrifar
image

Ástralskur fallhlífarstökkvari komst í hann krappann í haust þegar hann losaði óvart varafallhlíf sína, þegar hann stökk út úr flugvél. Fallhlífin flæktist í stéli flugvélarinnar og þar hékk maðurinn um tíma, áður en honum tókst að losa sig og féll hann þá aftur til jarðar.

Rannsóknarnefnd samgönguslysa í Ástralíu (ATSB) hefur birt myndband af atvikinu samhliða skýrslu sem gefin var út í morgun.

Atvikið átti sér stað þann 20. september, samkvæmt frétt Ríkisútvarps Ástralíu, þegar sautján manna hópur fór í fallhlífarstökk úr rúmlega 4.500 metra hæð. Þegar fyrstu tveir mennirnir voru að koma sér úr flugvélinni flæktist handfang varafallhlífar hans í væng flugvélarinnar og opnaðist.

Við það féll hann af flugvélinni og lenti í leiðinni á hinum manninum sem var að koma sér fyrir svo hann féll til jarðar. Fyrri maðurinn féll þó ekki til jarðar þar sem fallhlífin flæktist í stéli flugvélarinnar.

Báðir mennirnir voru með myndavélar á sér og einnig var búið að koma fyrir myndavél á væng flugvélarinnar svo atvikið var fangað á myndband.

Myndband ATSB um slysið má sjá hér að neðan. Skýrslu stofnunarinnar má finna hér.

Eins og sjá má á myndbandinu hér að ofan tókst manninum að skera sig lausan en hann slasaðist á fótum þegar þeir lentu á stélinu. Eftir að hann féll aftur til jarðar tókst manninum að opna aðalfallhlíf sína og losa flækjurnar sem mynduðust.

Honum tókst í kjölfarið að lenda á jörðu niðri og komst tiltölulega óskaddaður frá þessu.

Einnig tókst að lenda flugvélinni, þó stélið hefði skemmst og að fallhlífin hefði enn verið föst á stélinu.

Sjá má frétt ríkisútvarps Ástralíu um atvikið í spilaranum hér að neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×