Innlent

„Þá sýndu stjórn­völd kjark“

Smári Jökull Jónsson skrifar
Halla Þorvaldsdóttir er framkvæmdastjóri Krabbameinsfélagsins.
Halla Þorvaldsdóttir er framkvæmdastjóri Krabbameinsfélagsins. Vísir/Sigurjón

Meirihluti almennings er fylgjandi stjórnvaldsaðgerðum til að sporna við ofþyngd barna sem krabbameinsfélagið segir stærsta orsakavald að krabbameinum sem hægt sé að gera eitthvað við. Nýverið opnaði vefsíða sem auðvelda á almenningi að elda hollari mat.

Í niðurstöðum NORMO heilsufarsrannsóknarinnar sem birtar voru í síðustu viku kom fram að eitt af hverjum fjórum börnum á Íslandi er í ofþyngd og er hlutfallið hærra hér á landi en hinum Norðurlöndunum. 

Ofþyngd barna er stærsti orsakavaldur að krabbameinum sem hægt er að gera eitthvað við. 

„Það var þess vegna sem krabbameinfélögin fóru í það að vinna í þessu máli,“ sagði Halla Þorvaldsdóttir framkvæmdastjóri Krabbameinsfélagið í viðtali í kvöldfréttum Sýnar.

„Félögin fóru í þríþættar aðferðir, rýndu allar vísindarannsóknir um stjórnvaldsaðgerðir og árangur sem hægt er að leiða af þeim, settu fram ráðleggingar til stjórnvalda og könnuðu svo afstöðu almennings til aðgerða.“

„Þetta var eiginlega alveg stórkostlegt“ 

Samkvæmt könnun sem norrænu krabbameinsfélögin létu gera er meirihluti almennings hlynntur stjórnvaldsaðgerðum vegna ofþyngdar barna.

„Þetta var eiginlega alveg stórkostlegt að fá því við vitum að það er oft erfitt fyrir stjórnvöld að setja fram aðgerðir sem hægt er að túlka sem inngrip í okkar daglega líf, mörgum finnst það ósmart,“ segir Halla en bætir við að þegar almenningur sé spurður út í aðgerðir til að koma í veg fyrir heilbrigðisvandamál barna þá sé staðan alls ekki þannig.

Í könnuninni kemur meðal annars fram stuðningur við aukna skattlagningu á óhollan mat og sykraða drykki og að gripið sé til aðgerða um markaðssetningu og merkingu matvara.

„Stjórnvöld geta treyst því að þau hafa stuðning meirihluta almennings að grípa til aðgerða sem geta verndað börn og unglinga fyrir því að lenda í ofþyngd eða offitu í framtíðinni.“

Nýr matarvefur sem einfalda á fólki lífið

Nýverið opnaði vefurinn Gott&Einfalt en hann er samstarfsverkefni SÍBS og Krabbameinsfélagsins. Uppskriftir á vefnum taka mið af opinberum ráðleggingum um mataræði og á einfaldan hátt er hægt að útbúa bæði vikumatseðil og innkaupalista. Einnig er hægt að flokka uppskriftir á einfaldan hátt, allt frá barnvænum, millimáli og nesti til hátíðauppskrifta.

„Við vitum að það er ekki nóg að segja fólki, við verðum að rétta því tól og tæki. Á þessum vef eru gagnlegar upplýsingar en líka mikið safn af uppskriftum, einföldum og tiltölulega hagstæðum“

„Að einfalda okkur lífið, það er það sem við þurfum. Meira að segja eru fullt af jólauppskriftum á þessum vef,“ sagði Halla brosandi.

„Versta sem við getum gert er að gera ekkert“

Halla segir forvarnarstarf mikilvægt og að aðrir horfi hingað til lands og þeirra aðgerða sem stjórnvöld gripu til svo hægt væri að minnka líkur á lungnakrabbameini með því að draga úr reykingum.

„Við náðum gríðarlegum árangri hér á landi einmitt með stjórnvaldsaðgerðum. Með því að hækka verð, fela tóbak í búðum og banna staði sem mátti reykja á og svo framvegis. Þarna sýndu stjórnvöld kjark, enginn held ég myndi vilja fara til baka.“

Alma Möller heilbrigðisráðherra greindi á dögunum frá fyrirhugaðri þingsályktunartillögu með aðgerðum sem sporna eigu við offitu og ekki síst hjá börnum.

Halla segir orð ráðherra skiptir máli og er vongóð um árangur í framtíðinni.

„Það versta sem við getum gert er að sitja með hendur í skautum og gera ekki neitt. Við viljum öll börnunum okkar hið besta og þetta er liður í því“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×