Skoðun

Enginn er „bara fangi“ eða glæpa­maður

Gylfi Þorkelsson skrifar

EPEA er skammstöfun fyrir European Prison Education Association. Samtök þessi eru borin uppi af sjálfboðaliðum, fólki sem er flest í fullri vinnu annarsstaðar, og því eiga þau allt sitt undir hugsjónum, eldmóði og seiglu einstaklinga, sem í langflestum tilvikum vinna, eða hafa unnið, í fangelsum vítt og breitt um Evrópu. Þar kennir margra grasa; kennarar og annað skólafólk, heilbrigðisstarfsfólk, fólk úr stjórnsýslu, fangaverðir, stjórnendur, listamenn o.s.frv.

Alla jafna stendur EPEA fyrir stórri ráðstefnu annað hvert ár. Þar sem samtökin eru ekki á fjárlögum ríkja eða stofnana reiða þau sig á styrki til að halda sér á floti frá degi til dags, og til að fjármagna stórar, fjölþjóðlegar ráðstefnur.

Í ár var EPEA-ráðstefnan haldin í Skopje í Norður-Makedóníu. Þátttakendur voru 135 frá 24 löndum. Í setningarræðu stjórnarformanns samtakanna kom fram að meginástæðan fyrir staðarvalinu væri sú að virkni innan samtakanna frá Balkanlöndunum hefði fram að þessu verið hverfandi, og nú væri gerð tilraun til að bæta úr því.

Það ætti ekki að koma á óvart að Norðurlöndin eru framarlega í þróun á þessu sviði, ekki síst Svíþjóð og Noregur. Þessi lönd sendu langflesta þátttakendur, u.þ.b. 15 manna sendinefndir hvort, úr öllum lögum stigveldisins; frá kennurum á gólfinu upp í fulltrúa ráðuneyta.

Á ráðstefnunni, sem undirritaður sótti einn Íslendinga, voru fluttir fyrirlestrar, haldnar málstofur og pallborðsumræður. Kynntar voru rannsóknir, stefnur og skipulag menntunar í fangelsum í mismuandi löndum, og sagðar „reynslusögur“ af ýmsum árangursríkum og gjarnan óhefðbundnum verkefnum.

Hvað brennur helst á rannsakendum, starfsfólki fangelsa og áhugafólki um bætta stöðu í evrópskum fangelsum? Ekki er hægt að tíunda allt það sem fram kom, en hér er reynt að að draga fram meginlínur, þá sameiginlegu tóna sem hljómuðu undir flestum framsögum og umræðum á ráðstefnunni.

Hverjar eru mannlegar þarfir?

  • Öll höfum við sömu grunnþarfir (anda, drekka, éta, skíta)
  • Til að blómstra þarf að finna til öryggis
  • Öllum er nauðsyn að „tilheyra“, vera hluti af hópi
  • Við þurfum á sjálfstrausti að halda
  • Allt þetta þarf til persónulegs þroska

Líf í fangelsi snýst stöðugt um að „lifa af“. Það skapar stress, mikið adrenalín og þar af leiðandi takmarkað rými til þroska. Við getum aðeins lært þegar þörfum okkar er fullnægt og við erum örugg. Hvernig er hægt að skapa þær aðstæður fyrir fanga?

Rauður þráður í allri umræðu um menntun í fangelsum er að þar séu lokaðar inni brotnarmanneskjur sem trúa því að þær séu einskis verðar og því sé meginverkefnið að koma þeim í skilning um að svo sé ekki.

Traust og tengsl milli nemenda og kennara eru því grundvöllur undir nám, fremur en framsetning hinnar eiginlegu „uppfræðslu“. Þetta er tvíeggjað sverð, því kennarar tengja almennt mjög við siðferðilega og tilfinningalega hlið starfsins. Ef þeir verða of tilfinningalega tengdir föngum er meiri hætta á að þeir brotlendi heldur en í „hefðbundnum aðstæðum“. Of fáir vilja hætta sér í þær aðstæður.

Til að skapa nauðsynlegt traust, auk persónulegra tengsla milli kennarans og nemandans, þarf að hlusta á skoðanir nemendanna og hvetja þá, með ýmsum hætti.

Ofan á ferlið í skólastofunni, sem getur verið snúið, bætast mörg lög af ytri hindrunum. Er til opinber stefna? Hvað stendur í henni? Hvað af því er gert? Hvaða viðhorf og reglur, skrifaðar og óskrifaðar, eru virkar í þessu ráðuneyti eða hinu? En hjá yfirvöldum fangelsismála? Meðal starfsmanna í hverju fangelsi fyrir sig? Í viðkomandi menntastofnun? Hvað má og hvað má ekki? Hvaða aðstæður eru fyrir hendi? Hvað er hægt að gera hér og hvað þar? Eru virk tengsl milli fangelsa og skólakerfisins? Er rekin refsistefna eða betrunarstefna?

Víða er rekin hörð refsistefna. Hugmyndir starfsfólks í fangelsum um betrun mæta oft harðri andstöðu, innan „kerfis“ sem utan; hjá stjórnvöldum, fangelsisyfirvöldum, stjórnmálafólki og almenningi.

Í okkar heimshluta, Norður- og Vestur-Evrópu, ber meira á opinberri betrunarstefnu. Fangelsi eigi að taka virkan þátt í því að bæta einstaklinga og samfélagið og auka þar með öryggi borgaranna. Sýnin er sú að í „dvölinni“ eigi að hjálpa föngum að móta framtíð sína sem virkir þátttakendur í samfélaginu. Að hjálpa þeim að sjá fram á veginn svo þeir viti hvað þeir vilja þegar þeir losna út. Til að þetta geti gengið eftir þarf „heildstæða nálgun náms, heilsu- og fíknimeðferðar“, og að leggja frekar áherslu á að færa „hið venjulega líf“ inn í fangelsin, eins og kostur er, fremur en að einangra fanga frá því. Menntun og hæfni verða að vera miðpunktur og kjarni skipulags í fangelsum.

Til að skapa jákvæð viðhorf og menningu innan fangelsanna og meðal starfsfólks

  • þarf skólafólk að vera í stjórnunarteymum fangelsanna
  • þarf mikilvægi menntunar að vera hluti af þjálfun fangavarða

Hverjir lenda í fangelsum?

-Hvað teikn er hægt að sjá - og hvenær er hægt að koma auga á þau?

Margar rannsóknir sýna að afbrotaferill eigi sér rætur í bernsku. Sumir einstaklingar lenda mjög snemma í erfiðleikum, læra í undirmeðvitundinni að þeir hafi orðið undir á ákveðnum sviðum. Sú tilfinning vindur síðan upp á sig eins og snjóbolti, ef kerfin grípa ekki inn í þróunina á viðeigandi og áhrifaríkan þátt.

Eitt fyrsta teiknið um slíka erfiðleika er máltakan og málþroskinn. Ef ekki er gripið strax inn í getur slakur málþroski hæglega leitt til erfiðleika í samskiptum, við nám og í skóla, með fjölþættum, stigvaxandi afleiðingum, s.s. lélegu sjálfsmati, árekstrum, áreitni, einelti, ofbeldi o.s.frv. Það eru ekki bara tungumálaerfiðleikar innflytjenda sem eru hættumerki, heldur innfæddra líka.

Ótrúlega margir fangar áttu í vandræðum með málþroska eða mál, lestrarerfiðleika o.s.frv. Sumir fóru ekki í sérkennslu af því þeir höfðu áður hrakist úr skóla. Tungumálaerfiðleikar ungmenna eru oftast fyrst greindir eftir að þau eru komin í „lokuð úrræði“ eða fangelsi.

Mikilvægasta forvörnin er því að leggja strax mesta áherslu á málþroskann og tungumálið, því enginn getur tekið virkan, gefandi þátt í samfélaginu án góðrar færni í tungumálinu, hvað þá notið menntunar.

Fram kom að aukinn fjöldi ungmenna í Noregi kemst í kast við lögin. Fyrir nokkrum árum voru til pláss í sérstökum „úrræðum“ fyrir 4 í Bergen, en nú er áætlað að byggja úrræði fyrir 22. Á sama tíma fer glæpatíðni minnkandi í landinu.

Hvaða ungmenni eru þetta?

  • Þau sem hafa flutt oft
  • Þau sem eiga foreldra af erlendu bergi
  • Þau sem koma frá fátækum heimilum
  • Þau sem eiga annað foreldrið sem hefur setið í fangelsi
  • Piltar
  • Þau sem hafa lent í vandræðum í skóla

Ungt fólk reynir alltaf á mörkin og samfélagið verður að umbera það, en um leið að reyna að koma í veg fyrir að hegðunin leiði það fyrir dómstóla. Mál er grundvöllurinn að öllu. Stjórnmálamenn vilja gjarnan laga margt, en eru ekki eins ákafir í tilraunum til að koma í veg fyrir þróun, eða afleiðingar hennar. En engum getur vegnað vel ef hann hefur ekki gott vald á máli til að tjá sig eða skilja umhverfið.

Hindranir í stafrænni kennslu

-Hvaða hindranir blasa við í stafrænni kennslu? Hvað er hægt að gera til að taka einhver skref fram á við?

  • Hvaða stafrænu innviðir eru til staðar?
  • Hvaða tæki og búnaður eru til staðar?
  • Hvaða reglur og lög takmarka notkun tækjanna, ef þau eru til?

Eru til tölvur? Eru til nógu margar tölvur? Eru þær hlaðnar nauðsynlegum búnaði? Mega fangar fara á netið? Ef ekki, hvað er til ráða?

Í Svíþjóð eru fangelsin með lokað innranet, lokað frá Internetinu. Þar geta kennarar sett inn efni og nemendur unnið í því hver á sínum stað, vítt og breitt um landið, haft samband við kennara hvar á landinu sem þeir eru, og fengið endurgjöf. Samhæft kerfi, allir fangar og kennarar þeirra eru í sama kerfinu, hvar á landinu sem er.

  • Engar áhyggjur af öryggismálum vegna internetsins
  • Allt námsefni er til staðar á innranetinu.
  • Um 300 starfsmenn sinna menntamálum í fangelsum, allir ráðnir af fangelsisyfirvöldum.

Óformleg menntun

Óformleg menntun var töluvert til umræðu og nokkrir fyrirlesarar kynntu verkefni sem þeir höfðu unnið með föngum, m.a. í mjög lokuðum og fyrirfram álitnum erfiðum aðstæðum. Samhljómur var um góðan árangur af slíku starfi, þar sem jákvæðir eiginleikar manna, sem almennt voru taldir „harðsvíraðir“, fengu að njóta sín:

  • Getur skapað skemmtilegt og öruggt umhverfi og betri færi á jafningjafræðslu
  • Góð fyrir þá sem hafa slæma reynslu af skólakerfinu, mögulegt að nálgast þá á annan, óformlegri hátt, skapa „mannlegri“ aðstæður og „eðlilegri“ samskipti
  • Bæði nemandi og kennari búa yfir þekkingu og hæfni, meiri möguleikar á samskiptum á jafningjagrundvelli
  • Meiri líkur á virkri þátttöku
  • Gagnrýnin samræða er líklegri í óformlegu starfi
  • Auðveldara að skapa tengsl við veröldina utan múranna
  • Alltaf þarf að hafa í huga þær hindranir sem ytri aðstæður valda

Möguleikarnir eru fjölbreyttir, m.a.:

  • Stafrænt nám gegnum leiki. Hægt er að nýta tölvuleiki í kennslu.
  • Leiklist
  • Sögur, þær bjóða upp á táknræna fjarlægð, ýta undir ímyndunaraflið og innri tilfinningalega skoðun, samúð og gagnrýna hugsun. Sögur geta byggt „brú út yfir múrana“, eflt virðingu og samskiptahæfni
  • Tónlist; söngur, hljóðfæraleikur, hljómsveitir, kórar. Söngurinn og tónlistin skapa traust og samhæfni milli ólíkra hópa, menningar- og trúarhópa, frið og virðingu. Tónlist minnkar stress. „Músík í stað meðala“
  • Aðrar listir
  • Íþróttir sem „tæki til menntunar“. Leggja áherslu á „gildi íþrótta“ og færa þau inn í menntunina og svo áfram út í lífið þegar fangar losna: Liðsandi, reglur, kunna að vinna og tapa. Tengsl milli líkamlegar og andlegrar heilsu, „heilbrigð sál í hraustum líkama“
  • Samtal. Kynnt var rannsókn á konum í fangelsi, þar sem farið var inn og rætt við konurnar. Meginpunkturinn var mikilvægi samtalsins, að fá þátttakendur í rannsókninni til að tala um líf sitt og reynslu: Það „að tala“ er mikilvægt ferli til að breyta lífi sínu

Rannsókn á ungum „ferðaglæpamönnum“

Kynnt var rannsókn á sk. „ferðaglæpum“, þ.e. fólki sem ferðast eða er sent til annarra landa í ólöglegum tilgangi, svo sem að ræna, dreifa fíkniefnum o.s.frv. Hverjir eru þetta og hver er bakgrunnur þeirra?

  • Þeir eru brottfallsnemar úr skóla
  • Þeir þurfa snemma að sjá fyrir fjölskyldu (opna bar, veitingastað, verkstæði o.s.frv.)
  • Þeir koma úr fátækum fjölskyldum
  • Þeir eru úr strjálbýli
  • Þeir eru ungir, áhrifagjarnir / heilaþvegnir / barnalegir („naive“). Peningar eru tákn um virðingu og því er loforð um skjótfenginn gróða þeim girnilegt agn
  • Þeir eru frá löndum með slakan efnahag og atvinnuleysi
  • Þeir eru ungir og tilbúnir að taka áhættu
  • Þeir eru vanir að vera lausráðnir, án samnings, réttindalausir á lágmarkslaunum
  • Þeir kunna ekkert á rekstur, þekkja ekki laga- og skattaumhvefi, reikningsskil eða annað sam þarf til að reka fyrirtæki
  • Það er rík nauðsyn á námi á þessum sviðum, annars er mikil hætta á að þessir einstaklingar lendi í vandræðum með rekstur, safni skuldum, m.a. skattaskuldum, o.s.frv. - og lendi aftur í fangelsi

Siðferðisstig samfélaga

Nokkrir framsegjenda tóku þátt í pallborðsumræðum undir lok ráðstefnunnar, þar sem rætt var vítt og breitt um þau málefni sem snert hafði verið á dagana á undan, og eftirfarandi viðhorf komu m.a. fram:

  • Sagt hefur verið að siðferðisstig samfélaga birtist í réttu hlutfalli við þá umhyggju sem hinum minnimáttar og utangarðs er sýnd.
  • Það er tími kominn til að afklæða tabúið: Að tala „opið“ um málefnið. Í lýðræðissamfélagi verður að tala. Það má ekki þegja
  • Það er siðferðileg skylda að mennta fanga
  • Við erum öll manneskjur. Fangar eru mæður, feður, systur, bræður, dætur, synir, frænkur og frændur, alveg eins og verðirnir, kennararnir, stjórnendurnir, stjórnmálamennirnir og ráðherrarnir
  • Engan skyldi skilgreina út frá einu sjónarhorni. Enginn er „bara fangi“ eða glæpamaður.

Höfundur er kennslustjóri Fjölbrautaskóla Suðurlands í fangelsum.




Skoðun

Sjá meira


×