Fótbolti

Sú besta kláraði æfingu fótbrotin og ó­vissa um leikinn við Ís­land

Sindri Sverrisson skrifar
Aitana Bonmatí var með spænska landsliðinu í Kaiserslautern á föstudaginn, í fyrri úrslitaleiknum við Þýskaland.
Aitana Bonmatí var með spænska landsliðinu í Kaiserslautern á föstudaginn, í fyrri úrslitaleiknum við Þýskaland. Getty/marco Steinbrenner

Aitana Bonmatí, sem hlotið hefur Gullboltann síðustu þrjú ár í röð, missir af seinni úrslitaleik Þjóðadeildar kvenna í fótbolta á morgun eftir að hafa fótbrotnað á æfingu spænska landsliðsins. Meiðslin gætu komið í veg fyrir að hún mæti Íslandi í undankeppni HM.

Spánn og Þýskaland gerðu markalaust jafntefli í fyrri leik úrslitaeinvígisins en mætast aftur á Spáni á morgun þar sem spænska liðið verður að spjara sig án Bonmatí.

Hún meiddist á æfingu í gærmorgun en kláraði engu að síður æfinguna, þrátt fyrir verkina sem hún fann eftir árekstur við liðsfélaga. Í röngtenmyndatöku kom hins vegar í ljós að hún hefði brotið bein í vinstri leggnum.

Samkvæmt spænskum miðlum er ljóst að hún verður frá keppni í fjórar til sex vikur en ef meiðslin reynast alvarlegri og hún þarf að fara í aðgerð gæti það þýtt fjarveru í þrjá til sex mánuði.

Það veldur óvissu um það hvert Bonmatí verði með Spáni þegar liðið tekur á móti íslenska landsliðinu í byrjun mars, í nýrri undankeppni HM.

Bonmatí, sem er 27 ára, kemur til með að missa af leikjum með Barcelona í Meistaradeild Evrópu, spænsku deildinni og spænska ofurbikarnum í janúar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×