Innlent

Stakk af frá hörðum á­rekstri

Samúel Karl Ólason skrifar
Lögregluþjónar að störfum í miðbænum í gærkvöldi.
Lögregluþjónar að störfum í miðbænum í gærkvöldi. Vísir/Kolbeinn Tumi

Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu barst í gærkvöldi tilkynning um harðan árekstur þar sem tveir bílar skullu saman. Ökumaður annars bílsins stakk þó af á hlaupum áður en lögregluþjóna bar að garði.

Í dagbók lögreglu segir að engar frekari upplýsingar um málið hafi verið komnar í kerfi lögreglunnar í morgun.

Í heildina voru 78 mál skráð í kerfi lögreglunnar frá fimm í gærkvöldi til fimm í morgun og gistu fjórir í fangageymslu í nótt.

Í einni línu í dagbókinni segir: „Tilkynnt um grunsamlega tösku. Reyndist innihalda vopn og fíkniefni“. Engar frekari upplýsingar fylgja um málið, aðrar en að þetta var í umdæmi lögreglustöðvar 1. Það umdæmi spannar miðbæinn, Vesturbæ, Hlíðar, Laugardal, Háaleiti og Seltjarnarnes.

Lögreglunni þar bárust einnig tilkynningar um grunsamlegar mannaferðir og innbrot. Þá voru skráðar þrjár „minni háttar“ líkamsárásir og eru þær í rannsókn.

Að minnsta kosti tíu ökumenn voru handteknir í nótt fyrir akstur undir áhrifum áfengis og/eða fíkniefna.

Einn ökumaður var mældur á 120 kílómetra hraða þar sem hámarkshraði er sextíu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×