Fótbolti

Þjálfari sem mætti Víkingi í fyrra lést í miðjum leik

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Mladen Zizovic, 1980-2025.
Mladen Zizovic, 1980-2025. getty/George Wood

Mladen Zizovic, þjálfari serbneska liðsins Radnicki 1923, lést í miðjum leik í gær.

Zizovic hné niður á hliðarlínunni þegar fjörutíu mínútur voru liðnar af leik Radnicki og Mladost Lucani. Hann var fluttur á spítala en í hálfleik var greint frá því að hann væri látinn. Zizovic var 44 ára gamall.

Leiknum var hætt enda voru leikmenn augljóslega í miklu áfalli.

Hinn bosníski Zizovic var nýtekinn við Radnicki en leikurinn í gær var aðeins hans þriðji við stjórnvölinn hjá liðinu.

Áður en Zizovic tók við Radnicki stýrði hann Borac Banja Luka í Bosníu. Hann kom liðinu í sextán liða úrslit Sambandsdeildar Evrópu.

Í deildarkeppni Sambandsdeildarinnar mætti Borac Banja Luka Víkingi á Kópavogsvelli. Víkingar unnu 2-0 sigur í leiknum sem fór fram 7. nóvember í fyrra.

Zizovic, sem lagði skóna á hilluna 2016, lék tvo leiki fyrir bosníska landsliðið á sínum tíma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×