Erlent

Vill draga Netanyahu fyrir dóm vegna á­rásarinnar í Doha

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Al-Thani segir alla von úti fyrir gíslana sem enn eru í haldi Hamas.
Al-Thani segir alla von úti fyrir gíslana sem enn eru í haldi Hamas. epa/Mohamed Hossam

Mohammed bin Abdulrahman bin Jassim al-Thani, forsætisráðherra Katar, segir Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísrael, hafa „drepið von“ þeirra gísla sem enn eru í haldi Hamas á Gasa.

Þetta sagði al-Thani í samtali við CNN í kjölfar árása Ísraelshers á samninganefnd Hamas í Doha á þriðjudaginn. Hann sagði árásina hryðjuverk af hálfu Ísraels og kallaði eftir því að Netanyahu yrði látinn svara fyrir málið fyrir dómstólum.

Fimm samningamenn Hamas létust í árásinni og einn meðlimur öryggissveita Katar.

Í yfirlýsingu sakaði Netanyahu stjórnvöld í Katar fyrir að slá skjaldborg um hryðjuverkamenn og útilokaði ekki frekari árásir. Katar og önnur ríki sem skytu skjólshúsi yfir hryðjuverkamenn þyrftu annað hvort að reka þá úr landi eða draga þá fyrir dóm, ellegar myndu Ísraelsmenn sjá til þess að réttlætinu yrði fullnægt.

Al-Thani sagðist hafa fundað með ættingjum gíslanna 20, sem enn eru taldir á lífi. Þeir hefðu reitt sig á samningaviðræður Ísraels og Hamas, þar sem þeir ættu enga aðra von um að sjá ástvini sína aftur.

Netanyahu hefði gert út um þessar vonir.

Yechiel Leiter, sendiherra Ísrael í Bandaríkjunum, sagði í samtali við Fox News að ef ákveðnir leiðtogar Hamas hefðu ekki fallið í árásunum, eins og Hamas hefur haldið fram, myndi Ísraelsmönnum takast ætlunarverk sitt „næst“.

Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur harmað árásina og sagt Bandaríkjamenn hafa freistað þess að vara Katar við en þá hafi það verið of seint.

Stjórnvöld í Bretlandi, Rússlandi og Kína hafa fordæmt árásina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×