Körfubolti

„Hélt að það yrði erfiðara að dekka Doncic“

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Styrmir Snær fer sáttur heim af EM með mikla reynslu í farteskinu..
Styrmir Snær fer sáttur heim af EM með mikla reynslu í farteskinu.. vísir/hulda margrét

Landsliðsmaðurinn Styrmir Snær Þrastarson hefur sótt sér mikla reynslu á EM í körfubolta. Mót sem hann mun aldrei gleyma.

„Þetta er búið að vera grátlegt á köflum. Ef og hefði og allt það. Við gætum þannig séð verið búnir að vinna þrjá leiki. Maður verður að taka þetta á kassann og læra af þessu,“ segir Styrmir Snær yfirvegaður.

„Þetta er einhver mesta reynsla sem ég hef fengið að spila. Að spila á móti öllum þessum gaurum og sterku þjóðum. Við verðum að koma á næsta mót og vinna þar.“

Klippa: Styrmir þakklátur fyrir reynsluna

Styrmir Snær er kraftmikill leikmaður sem fátt óttast. Það er því ekki að undra að honum líði vel á stóra sviðinu í Katowice.

„Mér líður vel. Skotin mættu detta en mér líður vel á vellinum. Ég tek venjulega skot sem mér líður þægilega með og stundum fer þetta ekki niður.“

Lærir af reynsluboltanum

Styrmir var einn af þeim sem fékk það tækifæri að halda aftur af ofurstjörnunni Luka Doncic í gær.

„Það var gaman. Ég hélt að það yrði mun erfiðara. Hann er duglegur að koma sér á vítalínuna og mjög klókur. Hann er mjög góður,“ segir Styrmir Snær en hann mun taka með sér heim fullan poka af reynslu.

„Að vera með strákunum. Mesti lærdómurinn er að fylgjast með eldri leikmönnum og sjá hvernig þeir haga sér innan og utan vallar. Læra af þeim. Svo er komið hungur í mig núna að taka næsta skref með landsliðinu.“

Rétt eins og flestir leikmenn er Styrmir með stóran hluta af fjölskyldunni sinni með sér. Það skiptir eðlilega miklu máli.

„Það gefur extra að hafa mömmu og pabba fremst þarna við völlinn.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×