Íslenski boltinn

Vals­menn án þriggja lykil­manna í leiknum mikil­væga gegn Stjörnunni

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Hólmar Örn verður í leikbanni í stórleik 22. umferðar.
Hólmar Örn verður í leikbanni í stórleik 22. umferðar. Vísir/Guðmundur

Valur, topplið Bestu deildar karla, verður án þriggja lykilmanna þegar liðið mætir Stjörnunni í 22. umferð Bestu deildarinnar. Um er að ræða síðustu umferð hefðbundinnar deildarkeppni áður en deildinni er skipt upp í efri og neðri hluta.

Aga- og úrskurðarnefnd Knattspyrnusambands Íslands kom saman í dag og þar voru komandi leikbönn staðfest.

Í úrskurði aganefndar kemur fram að þeir Hólmar Örn Eyjólfsson, Orri Sigurður Ómarsson og Aron Jóhannsson verði allir í leikbanni vegna fjölda gulra spjalda. Alex Þór Hauksson tekur að sama skapi út leikbann hjá Stjörnunni í leiknum.

Valur er sem stendur með 40 stig í toppsætinu en Stjarnan er í 3. sæti með 37 stig. Það er því deginum ljósara að úrslit leiksins munu að öllum líkindum hafa bein áhrif á hvaða lið stendur uppi sem Íslandsmeistari.

Leikurinn fer fram á Hlíðarenda þann 14. september næstkomandi og verður í beinni útsendingu Sýnar Sport.

Aðrir sem eru á leið í leikbann eru:

  • Viktor Karl Einarsson (Breiðablik)
  • Milan Tomic (ÍBV)
  • Jóan Símun Edmundsson (KA)
  • Fatai Gbadamosi (Vestri)

Lokaumferð Bestu deildar karla

Sunnudagurinn 14. september (Allir klukkan 14.00)

  • FH – Fram
  • KA – Vestri
  • KR – Víkingur
  • Valur – Stjarnan

Mánudagurinn 15. september

  • 16.45 ÍA – Afturelding
  • 18.00 Breiðablik – ÍBV



Fleiri fréttir

Sjá meira


×