Erlent

Öflugasti sjón­aukinn fann áður ó­þekkt tungl í sól­kerfinu

Kjartan Kjartansson skrifar
Samsett mynd James Webb-geimsjónaukans af Úranusi, hringjum hans og innri tunglum. S/2025 U1 sést rétt utan við meginhringina.
Samsett mynd James Webb-geimsjónaukans af Úranusi, hringjum hans og innri tunglum. S/2025 U1 sést rétt utan við meginhringina. NASA, ESA, CSA, STScI, M. El Moutamid (SWRI), M. Hedman (Univers

Áður óþekkt tungl fannst á braut um reikistjörnuna Úranus með James Webb-geimsjónaukanum, öflugasta sjónauka í heimi. Tunglið er eitt nokkurra smárra fylginhatta sem ganga um reikistjörnuna fyrir innan braut stærstu tunglanna.

Áætlað er að S/2025 U1, eins og tunglið er kallað til bráðabirgða, sé aðeins um tíu kílómetrar að þvermáli, að því er segir í grein á vef bandarísku geimvísindastofnunarinnar NASA. Því kom hvorki Voyager 2, eina geimfarið sem hefur flogið fram hjá Úranusi, né sjónaukar á eða við jörðina auga á það áður.

Sporbraut tunglsins er aðeins utan við ysta hring Úranusar og á milli brauta smátunglanna Ófelíu og Bíöncu. Það er eitt fjórtán smærri tungla innan við braut stóru tunglanna Míröndu, Aríel, Úmbríel, Títaníu og Óberons. Alls eru 29 tungl nú þekkt við þessa næstystu reikistjörnu sólkerfisins.

Það er í höndum Alþjóðasambands stjörnufræðinga (IAU) að samþykkja nafn á tunglið. Öll tungl Úranusar eru nefnd í höfuðið á persónum úr verkum ensku skáldanna Williams Shakespeare og Alexanders Pope.

Úranus er þriðja stærsta reikistjarna sólkerfisins. Líkt og hinir gasrisarnir þrír skartar hann hringjakerfi þótt það sé ekki eins tilkomumikið og Satúrnusar. 

Mynd Voyager 2-geimfarsins af Úranusi frá framhjáflugi þess árið 1986. Enginn annar fulltrúi mannkynsins hefur heimsótt þessa næstystu reikistjörnu sólkerfisins.JPL

Reikistjarnan er óvenjuleg fyrir þær sakir að hún snýst á „hliðinni“ miðað við brautarflöt sinn. Líklegasta skýringin á hallanum hefur verið talin árekstur við aðra plánetu í myndun í árdaga sólkerfisins. Einnig hafa verið leiddar líkur að því að þyngdaráhrif stórs tungls sem sé síðan horfið á braut gætu hafa velt Úranusi á hliðina.


Tengdar fréttir

Myndaði segulljós Neptúnusar í fyrsta skipti

Óvenjuleg segulljós Neptúnusar hafa verið mynduð í fyrsta skipti með James Webb-geimsjónaukanum. Athuganirnar leiddu einnig í ljós að efsti hluti lofthjúps reikistjörnunnar hefur kólnað um hundruð gráða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×