Arsenal sótti öll stigin á Old Trafford

Sindri Sverrisson skrifar
Riccardo Calafiori, hér í glímu við Bryan Mbeumo, skoraði sigurmarkið fyrir Arsenal í dag.
Riccardo Calafiori, hér í glímu við Bryan Mbeumo, skoraði sigurmarkið fyrir Arsenal í dag. Getty/Stuart MacFarlane

Silfurlið Arsenal hóf nýtt tímabil í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta á að vinna Manchester United á útivelli, 1-0.

Eina mark leiksins kom upp úr hornspyrnu á 13. mínútu. Declan Rice spyrnti inn að marki United og þar átti Altay Bayindir, sem stóð í marki United í dag, í miklum vandræðum með að komast til boltans. Þess í stað náði Riccardo Calafiori skallanum og skoraði.

United var ívið sterkari aðilinn það sem eftir lifði fyrri hálfleiks en skapaði lítið af færum. Danski bakvörðurinn Patrick Dorgu átti þó hörkuskot af um 25 metra færi sem fór í stöngina og David Raya varði afar vel frá Matheus Cunha úr þröngu færi.

Seinni hálfleikur var frekar rólegur framan af en United fór smám saman að auka sóknarþungann þegar á leið og nýi framherjinn Benjamin Sesko kom inn á þegar 25 mínútur voru eftir. Hann náði þó ekki, ekki frekar en Svíinn Viktor Gyökeres hjá Arsenal, að setja mark sitt á leikinn í frumraun í deildinni.

Cunha og Bryan Mbeumo náðu helst að skapa hættu við mark Arsenal en ekki þó þannig að Raya réði ekki við það og Skytturnar byrja því leiktíðina á góðum sigri.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira