Erlent

Vara við hópeitrunum af völdum THC eftir at­vik í fyrra

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Olían var notuð í deigið sem notað var á veitingastaðnum þrjá daga í október í fyrra.
Olían var notuð í deigið sem notað var á veitingastaðnum þrjá daga í október í fyrra. Getty

Sóttvarnastofnun Bandaríkjanna hefur hvatt lækna og aðra heilbrigðisstarfsmenn til að vera á varðbergi gagnvart mögulegum hópeitrunum af völdum virka THC í gegnum matvæli.

Tilefni er mál sem kom upp í Stoughton í Wisconsin í fyrra, þar sem að minnsta kosti 85 veiktust eftir að hafa neytt matvæla á veitingastað þar sem olía sem innihélt THC var notuð í misgáningi.

Tetrahýdrókannabínól, skammstafað THC, er virkt efni sem er unnið úr kannabisplöntunni Cannabis Sativa.

Börn og 91 árs einstaklingur voru meðal þeirra sem veiktust, eftir að hafa borðað á veitingastaðnum Famous Yeti's Pizza dagana 22. til 24. október. Rannsókn leiddi í ljós að olían á staðnum hafði klárast og starfsmenn fengið lánaða olíu í öðru sameiginlegu eldhúsi í sömu byggingu. 

Sú reyndist tilheyra fyrirtæki í húsinu sem framleiðir THC vörur ætlaðar til átu.

Að minnsta kosti 33 leituðu heilbrigðisþjónustu eftir að hafa upplifað einkenni á borð við svima, þreytu og streitu eftir að hafa borðað pítsu, hvítlauksbrauð eða samlokur á Famous Yeti's Pizza. Þrír voru lagðir inn.

Þar sem um óviljaverk var að ræða var ekkert frekar gert í málinu af hálfu yfirvalda en í skýrslu Sóttvarnastofnunarinnar er meðal annars vakin athygli á aukinni hættu á „smiti“ þegar nokkrir aðilar deila eldhúsi eða framleiðslurými.

Bendir stofnunin á að koma megi í veg fyrir tilvik af þessu tagi með því að vanda merkingar og geymslu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×