Körfubolti

Jokic fram­lengir ekki að sinni

Siggeir Ævarsson skrifar
Nikola Jokic verður seint sakaður um að taka vinnunni sinni of alvarlega
Nikola Jokic verður seint sakaður um að taka vinnunni sinni of alvarlega vísir/Getty

Nikola Jokic, stjörnuleikmaður Denver Nuggets og einn besti leikmaður NBA deildarinnar, hefur tilkynnt liðinu að hann muni ekki skrifa undir nýjan þriggja ára samning í sumar.

Jokic er samningsbundinn Nuggets út tímabilið 2027 og þá stendur honum til boða að taka eitt tímabil enn, svokallað „player option“ sem myndi tryggja honum 62,8 milljónir dollara í laun það tímabilið en Jokic er á hæstu launum sem lið geta boðið sínum bestu leikmönnum eða „supermax“ samningur.

Þó svo að Jokic hafi afþakkað nýjan samning að sinni þarf það alls ekki að þýða að hann sé á förum frá Nuggets þar sem að liðið getur boðið honum fjögurra ára samning næsta sumar og enn hærri laun. Samningurinn sem er nú á borðinu myndi tryggja honum 206 milljónir yfir þrjú ár en næsta sumar myndi sú tala væntanlega hækka um tíu prósent eða þar um bil. 

Jokic átti hreint ótrúlegt tímabil í vetur þar sem hann skoraði 29,6 stig, tók 12,7 fráköst og gaf 10,2 stoðsendingar að meðtali í leik. Hann varð þar með fyrsti miðherjinn í sögu deildarinnar til að ná þrefaldri tvennu að meðaltali í hverjum leik og aðeins þriðji leikmaðurinn til að ná þessu áfanga. Hinir tveir eru Oscar Robertson og Russell Westbrook.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×