Innlent

Hundruð öku­manna sektaðir og átta sviptir vegna hraðaksturs

Lovísa Arnardóttir skrifar
Horft til suðurs á Kringlumýrarbraut.
Horft til suðurs á Kringlumýrarbraut. Vegagerðin

Átta ökumenn eiga yfir höfði sér sviptingu ökuréttinda, auk sektar, og 246 ökumenn til viðbótar von á sekt vegna hraðaksturs við framkvæmdasvæði hjá Kringlumýrarbraut á vegarkafla á milli Háaleitisbrautar og Miklubrautar á móts við Bólstaðarhlíð. Frá þessu er greint í tilkynningu frá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.

Þar kemur fram að þeir þrír sem eigi von á því að vera sviptir ökuréttindum hafi ekið á meira en 70 kílómetra hraða á klukkustund og fimm á yfir 60 kílómetra hraða. Lögreglan var við eftirlit á myndavélabíl sínum í klukkustund og fylgdist með ökumönnum sem óku Kringlumýrarbraut til suðurs.

Svona mun vegarkaflinn líta út. Vísir/Sara

Fram kemur í tilkynningu að meðalhraði hinna brotlegu hafi verið 48 kílómetrar á klukkustund en hámarkshraði á þessu svæði er 30 núna vegna framkvæmdanna en þar er verið að bæta við sérstakri akrein fyrir Strætó.

Lögreglan var við hraðamælingar á sama stað í síðustu viku og fengu þá 322 ökumenn sekt vegna hraðaksturs.

„Eftir vöktunina eiga 322 ökumenn von á sekt, en meðalhraði hinna brotlegu var 49. Fylgst var með ökutækjum sem var ekið Kringlumýrarbraut til norðurs og var brotahlutfallið 41%. Sjö óku á vel yfir 60 og fimm á meira en 70, en allir tólf ökumennirnir eiga yfir höfði sér sviptingu ökuréttinda, auk sektar,“ sagði í tilkynningu lögreglunnar fyrir viku síðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×